Leita í fréttum mbl.is

Ég skil ekki spurninguna

Fyrir þá sem ólmir vilja vita hvað ég er að gera þessa dagana þá langar mig til að upplýsa þá um að ég hef barasta aldrei verið að stússa í jafn miklu og akkurat núna. Mestur tími fer nú í að kenna óhörðnuðum unglingum stærðfræði og líffræði í Hagaskóla. Enn hef ég ekkert út á Hagaskóla að setja og er það von mín og trú að sú afstaða muni ekki ekki taka stórfelldum breytingum. Krakkarnir virðast hlusta og kinka kolli eins og þau skilji en hlutaprófin munu innan skamms draga sannleikann fram í dagsljósið um hvort þau hafi verið að taka eftir eða í raun bara verið að hlusta á ipod og kinka kolli í takt við tónlistina. Ég mun upplýsa ykkur um það innan skamms, ef það fyrra á við. Ef hinsvegar krakkarnir vita hvorki haus né sporð í efninu sem ég hef reynt að matreiða fyrir þau mun sá sannleikur verða þaggaður niður og ef einhver spyr mig um útkomuna úr prófunum segist ég ekki skilja spurninguna.

En ef kennslan væri það eina sem ég væri að gera þá væri sko einhver tími til að blogga einhverja vitleysuna á hverjum degi, en svo er ekki. Mastersnámið tekur einnig sinn toll. Ekki nóg með að maður mæti í tímana, það er ætlast til að maður lesi fyrir þá líka! Og það ekkert smá! Og á ensku! Síðan hvenær hef ég kunnað að lesa ensku? Ekki man ég eftir að hafa lært það og ekki er ég að fara að taka það upp svona á gamalsaldri.

En ef að kennslan og námið væri það eina sem ég tæki mér fyrir hendur rynni lífið ljúflega niður, en svo er ekki. Ég var nefnilega að flytja inn í íbúðina mína og þarf að gera hana aðlaðandi í alla staði til að geta boðið fólki upp á hana. Veggir brotnir, gólf flotað, veggir málaðir, ljósum skipt út, veggfóðrað og IKEA hlutum púslað saman. Og þetta er verið að neyða upp á mann og ekki er þetta ókeypis, onei. Kennaralaunin hrökkva skammt nú á síðustu og verstu. Hver getur til dæmis útskýrt fyrir mér hvernig er hægt að rukka svona mikið fyrir málningu?

En ef að hýbýlaprýðin væru einu útgjöldin þá væri maður nú að lifa hátt, en svo er ekki. Ég þarf nefnilega að fara að kaupa mér bíl. Og kröfur mínar um þann bíl eru strangar. Hann skal vera þokkafullur, lítið keyrður, fæddur eftir aldamótin, skiptir sjálfur á sér og ofan á þetta þarf hann að vera falur undir hálfu milljóninni. Endilega látið mig vita af einhverjum kostakaupum þarna úti því ekki finn ég þau í fréttablaðinu.

En ef kennslan, námið, íbúðin og aurarnir væru það eina, þá sæti ég sæll út á svölum og nyti lífsins, en svo er ekki. Það þarf að taka sér bolta í hönd og kasta honum því næst af öllu afli í net. Og þessa einföldu aðgerð þarf að æfa til hins ítrasta til að sem bestum árangri sé náð. Ég vissi ekki hvað ég var að skrifa upp á þegar ég byrjaði í boltaleiknum. Ég hélt að þetta væri eins og að læra að hjóla. Fyrst þarf að æfa sig en þegar þú ert búinn að æfa þig þá kanntu bara að hjóla og þarft engrar frekari æfingar við á þeim vettvangi. Þú ferð bara að hjóla þegar þú kýst svo. Ég æfði mig í að kasta þessum bolta, núna kann ég það og þá á ég bara að halda áfram að æfa mig í því, kasta boltanum betur, hjóla betur? Þannig að ég eyði góðum 3 tímum í æfingar í boltaleik sem ég þegar kann.

En ef að æfingarnar væru eins auðveldar og þegar maður var lítill þá væri sældin ein að taka þátt, en svo er ekki. Ég er nefnilega ungur drengur í háöldruðum líkama sem þolir álag líkt og köttur vatnsleikfimi. Tíu aðgerðir segja aðeins hálfa söguna, öðrum eymslum er aðeins haldið niðri með góðum skammti af voltaren rapit.

En fyrir utan þetta hef ég yfir litlu að kvarta. Nýt mín.fokk

 


Lofuð mey og leigjandi

Æfingaferðin til Spánar var flott í alla staði en því miður er ég bundinn þagnareið hvað varðar einstaka atburði. Ekki sást ský á lofti allan tíman og hitinn og svitinn var allsráðandi. Skýrt dæmi um hvorutveggja sást er góðvinur minn Ægir Hrafn lauk æfingu. Upp úr skónum hans svampaðist svitinn svo stór blaut spor mynduðust og vísuðu leiðina til hans. Auk þess myndaðist stærðarpollur af svita sem lak úr stuttbuxunum hans sem nota bene voru seinni stuttbuxurnar sem hann brúkaði á æfingunni. Þær fyrri eru ónýtar. Allir voru svo sveittir eftir æfingar að Hjalta Pálmasyni, er svitnar líkt og honum væri borgað fyrir það hér á Íslandi, leið bara eins og hann væri nokkuð eðlilegur þarna úti.

Gróttumenn sem voru okkur samferða í æfingarferðinni urðu sér algjörlega til skammar og táragas og lögregluna þurfti til að leggja þá til svefns síðasta kvöldið á hótelinu. Við vorum hins vegar allir til mikils sóma og höguðum okkur á besta veg. Óskatengdasynir hverrar móður.

Eins og kom fram í síðasta pistli þá var helsti tilgangur ferðarinnar meyjarleit. Hún fannst en til allrar óhamingju var hún lofuð. Þar var illt í efni því slíkan kvenkost hef ég sjaldan litið.

Nú er hann Brendan nokkur að fara að búa hjá mér. Þeir sem til hans þekkja vita hvað bíður mín. Til hinna er ekki kenna manninn, þá er hægt að skrifa bók um þennan dreng. Sögurnar um hann munu lifa líkamsdauða hans og eru þær jafn mismunand og þær eru margar.

Fæstar þeirra eru prenthæfar. 

Hand Brendan

Skjárinn kominn í hús, fer til Spánar að reyna að redda stúlkunni.

Verslaði mér forlátan flatan skjá í íbúðina og tel ég mig vera orðinn hluti af fyrirmönnum hér á landi fyrir vikið. Enn vantar mey í búið til að fullbúið sé og verður hennar leitað á Spáni. Við erum nefnilega að fara í æfingaferð til Spánar við valsararnir. Því miður er ég enn ómögulegur sökum uppskurðar á nára og get lítið æft. Tímanum verður því varið í armbeygjur á sundlaugarbakka í þveng einum fata. Er ég þess fullviss að sú sjón muni trekkja að kvenpeninginn og mun ég þá getað verslað mér þá er föngulegust virðist og verðið hlýtur að vera sanngjarnara en hér á Fróni. Ég hef samt töluverðar áhuggjur af genginu.

Sæl á meðan.  Herra Sigurður.


28 júlí, síðasti dagurinn í Kenya

Síðasti dagurinn í Kenya var runninn upp. Sú sorglega staðreynd að honum skuli varið í Nairobi blasti við. Við Magnús vorum komnir hálfa leiðina heim í huganum og undum okkur engan veginn þennan síðasta dag. Ég var hálf tussulegur í hausnum og hitinn, þrátt fyrir góðan vilja, gerði aðeins illt verra í þeim efnum. Við fórum niður í miðbæ og inn á þjóðminjasafnið. Þar var lítið merkilegt að sjá fyrir okkur enda höfðum við séð flest, sem þar var boðið upp á, í eigin persónu í ferðalagi okkar. Einnig hafði okkar leiði bílsjóri Ben sagt okkur rangt til með verðið inn á safnið en það reyndist mun hærra en lög segja til um. Það var reyndar hræódýrt ef maður er Kenyabúi og reyndi ég mitt besta í að sannfæra miðasöludömuna um að ég væri borinn og barnfæddur í Kenya en hún tók engum rökum. Maður er dæmdur af útlitinu einu saman. Veit fólk ekki að ég er svört sál föst í fölum líkama? Eftir afar leiðinlega safnferð fórum við að eta og eins og venjan er hér um slóðir stemmdu þeir réttir er bornir voru á borð engan vegin við þá rétti er pantaðir voru. Engin nýlunda þar á ferðinni. Að áti loknu fórum við á stúfana að leita að kenysku lögunum er höfðu ómað í eyrum vorum alla ferðina. Fundum við lögin og hlustum nú ekki á aðra tónlist. Mæli með að þið hlustið á eftirtalin lög og þá sér í lagi millikaflana í fyrstu tveim lögunum.

http://www.youtube.com/watch?v=I5rtV3s1lMw&feature=related

http://www.youtube.com/watch?v=X5DwZlF8_58

http://www.youtube.com/watch?v=xzOoXYkO9TQ

http://www.youtube.com/watch?v=5kdJ99UjkPY&feature=related

Fyrsta lagið er langvinsælasta lagið í Kenya um þessar mundir og fjallar um heyrnalausa stúlku (binte kiziwi) en ég var heitastur fyrir næstfyrsta laginu, Furahiday, en það þýðir gleðidagur en er borið fram mjög líkt og friday. Geggjaður millikafli sem ég vil að fari að heyrast á öldurhúsum bæjarins. Eftir bæjarstúss var farið heim og slakað á en um sexleitið var haldið af stað á Carnivors en það er veitingastaður sem sérhæfir sig í furðulegum steikum eins og krókódíl og strút. Það er all you can eat stemmning þarna og þá stemmningu nýtti ég mér óspart. Át yfir mig af lambi, nauti, kjúklingi, svíni, strúti og krókódíl. Krókódíllinn var dáldið eins og að fiski og kjúklingi hefði verið blandað saman. Bragðgóður til að byrja með en varð verri með hverjum bita. Að þessu loknu var haldið á flugvöllinn, upp í vél og Kenya kvödd. Sáttir og þreyttir. London beið okkar félagana.


Á einhver flatskjá fyrir mig á óheyrilega lágu verði? Nú eða stúlku?

Nú er að styttast í að ég flytji loks inn í mína glæsilegu íbúð og því ekki úr vegi að reyna að afla sér flatskjás. Ég væri til í 37-42 tommu og 80.000 er hámark þess fjárs sem ég vil spandera í gripinn en allt undir því verði er mun betra verð.
Svo vantar mig líka stúlku með góða grind til að bera mér börn þegar þar að kemur. Hún má vera 48-80 kíló, skörp og skemmtileg og einnig þarf hún að bera af sér góðan þokka. Hún skal ekki girnast aðra menn en mig. Fyrir stúlku er uppfyllir þessi skilyrði er ég tilbúinn að greiða allt að nítján þúsundum króna.

SKANDALL!!

Handboltalandsliðið er Íslendingum til skammar. Það er krafa þjóðarinnar að Guðmundi landsliðsþjálfa verði vikið frá störfum hið fyrsta. Eftir þessa háðulegu útreið gegn Frökkum er ljóst að það þarf duglega stokka upp í liðinu. Ólafur er greinilega kominn langt fram yfir síðasta söludag og má muna sinn fífil fegri. Þessir menn þarna í varnarmiðjunni eiga það sameiginlegt að vera töluvert yfir kjörþyngd og hefð mátt að sjá sóma sinn í því að koma sér í stand áður en á leikana er komið. Ofvirkniskeis og vanvirkniskeis skiptast á í markinu og ekki er það til framdráttar eins og glögglega mátti sjá í leiknum. Og þessi Alexander, er þetta Íslendingur? Og hver er þessi Sturla? Veit það einhver?
Ég legg til að handbolti verði lagður niður á Íslandi eftir þessa niðurlægingu og nota þá fjármuni og mannskap sem er sólundað í handboltann til að efla knattspyrnuna enn frekar hér á landi. Þar liggur þjóðarstoltið, í fótboltanum. Þar gerðum við til dæmis jafntefli við Aserbaídsjan! Ég hefði vel sætt mig við jafntefli við Frakka en því var ekki að skipta.

Nei, mikið er ég stoltur af Strákunum Okkar og stoltur af því að vera Íslendingur á svona merkisstundu. Þetta afrek íslenska landsliðsins er stærsta afrek íslenskrar íþróttasögu og ég er þakklátur að hafa upplifað það með landsmönnum öllum. Áfram Ísland!


mbl.is Ísland í 2. sæti á ÓL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

27 júlí

Hoppuðum upp í flugvél og aftur til Nairobi. Einn auka dagur í þeirri voluðu borg var staðreynd þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess að njóta lífsins aðeins lengur í Mombasa. En nei, heim var haldið. Rúfus og hinn miður skemmtilegi bílstjóri Ben tóku á móti okkur. Ofgnótt mangóávaxta beið okkar eins og hlýðnir hundar húsbónda síns og átum við þá alla með tölu. Það sem eftir var dagsins var spanderað í rólegheit enda lúnir eftir langt og strangt... Við sátum lengi út í garði og fylgdumst með hundum í slag, betlandi köttum og geithafri sem fékk það framan í sig og sleikti út um af áfergju. Oohh þessi afrísku dýr eru svo heimilisleg. Snæddum síðan með stórfjöskyldunni og lögðumst því næst útaf í léleg rúm.

26 júlí

Sváfum út og skelltum okkur síðan á Bella vista og báðum um það sama og vanalega. Fátt eðlilegra en að fá sér piparsteik í morgunmat. Eftir matinn fór Magnús í sólarbað en ég röti um gamla bæinn og markaði hans. Þar hitti ég gamlan mann sem tók mig upp á sína arma og gerðist leiðsögumaður minn. Með honum rölti ég um allt og hann fræddi mig um staðarhætti. Flottar búðir með arabísku ívafi voru á hverju strái og fékk ég græðgisglampa í augað, það hægra. Ég hélt heim og tældi Magnús með mér í búðarráp. Við versluðum klæði eins og enginn væri morgundagurinn og földum síðan fenginn upp á hótelherbergi. Að því loknu píndum við okkur á Bela vista og pöntuðum skammtinn okkar. Að áti loknu fórum við upp á hótelherbergi og fórum í slag undir moskítónetum. Eftir að hafa tekist hraustlega á og rifið bæði netin rotuðumst við. Ég með glóðarauga og sprungna vör, Magnús með auman úlnlið og tár á kinn.

25 júlí

Vöknuðum og eftir morgunmat var haldið í verslunarleiðangur. Um leið og við stigum út af hótelinu birtist hinn uppáþrengjandi Samúel (Örn?). Það er erfitt að segja til um hvort þeirra, flugurnar, hórurnar eða Samúel, sækir mest í okkur en úr þessum hópi veldi ég hórurnar á hverjum degi. Með hann í eftirdragi þræddum við búðir í gamla bænum og birgdum okkur upp af góssi. Eftir að hálfur bærinn hafði lofað okkur "special price" fyrir að kíkja inn í búð sína héldum við heim klyfjaðir. Eins gott að við versluðum okkur hvor sína risa ferðatösku til að troða varningnum góða í. Séðir! Að kaupum loknum var skellt sér í mat. Magnús vildi ólmur ráða staðarvalinu og ég fylgdi honum á Casablanca. Merkilegt nokk var þessi matsölustaður troðinn gleðikonum. Þarna snæddum við slæman mat undir daðri hóps vændiskvenna. Fórum við þaðan ófullnægðir og ófulnærðir og skelltum okkur á staðinn okkar, Bella vista. Þjónninn okkar hann Jón spurðu hvort við vildum ekki það sama og vanalega og við játtum því. Skömmu síðar birtist okkur kjúklingavængir og samósa í forrétt, piparsteikur, franskar, sósa og salat í aðalrétt og ávaxtasalat í eftirrétt. Með þessu voru drukknar tær fanta og tvær spræt. Þetta var etið í flest mál þann tíma er við vörðum í Mombasa. Eftir dýrindis snæðing var tekinn kúr á hótelinu til að vera ferskir fyrir kvöldið. Stefnan var tekin á fínan kínverskan veitingastað og síðan á diskó. Sá kínverski var dásamlegur en að sama skapi dýr. Á diskóinu voru þær trylltari í henni en á Vegamótum og undi Magnús því áreiti illa enda maður eigi einsamall. Ég fór hinsvegar ósáttur heim. Sváfum eins og börn.

24 júlí

Þessi dagur var hálfgerð spegilmynd fyrsta dagsins í Malindi. Hófum daginn á morgunmat, héldum svo í labbitúr í gegnum þorpið, öll börn hlupu út, veifuðu og æptu "ciao" og aðra vel valda ítalska frasa. Eftir að hafa gengið í gegnum þorpið fagra og síðan framhjá mafíósavillunum komum við niður á strönd. Magnús breytti ekki út af vananum heldur stökk útí en ég hélt hinsvegar kúlinu, óblautur á bakkanum. Við gengum ströndina á enda og tókum túktúk frá strandarenda beinustu leið á ítalskan veitingastað. Sami matur en nýjir mafíósar með nýjar fylgdarmeyjar. Um fjögur , eftir að Magnús hafði sótt sérsniðna ítalska leðurskó gerða úr fórnarlambi mafíósana, héldum við sem leið lá aftur til Mombasa. Kvöddum Katana með seðlum og þökkum og tékkuðum okkur inn á sama hótel og áður. Fórum fínt út að éta um kvöldið á Bella vista og það ekki í síðasta sinn. Fórum snemma aftur upp á hótel og Magnús flutti húslestur. Sofnaði um leið og lestur Magnúsar hófst.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Gleðigjafinn

Sigurður Eggertsson
Sigurður Eggertsson
Ég er ungur og bjartsýnn og það blessast allt hjá þessháttar gæja, nema hvað.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband