Leita í fréttum mbl.is

Af gefnu tilefni: Riddarinn af Wall-Street

Einu sinni var duglegur riddari sem langaði að vinna glæsta sigra. Hann var í góðum málum. Keypti hlutabréf í tölvufyrirtækjum meðan þau voru í höndunum á saklausum menntaskólanemum. Fattaði nútímann. Seldi líka á réttum tíma. Gerði fjandsamleg yfirtökutilboð í nokkur vesæl fyritæki á markaði, hækkaði verð þeirra, seldi svo og græddi grimmt. Hugmyndina hafði hann fengið úr dýralífsþætti í sjónvarpinu um sniðuga vesputegund sem verpti í annara bú og nýtti afkvæmi gestgjafanna niðjum sínum til fæðu á púpustigi. Hann hélt sig í sigurliðinu.
Hann trúði á frelsi, lýðræði og upplýsta og glaða neytendur. Riddarinn hafði prófað margt um dagana; stjörnuspeki, spíritisma og kristalslækningar. En það sem hafði virkað best fyrir hann var Dáv Djóns. Haldreipi hans í lífinu. Þegar hún óx var hann glaður, þegar hún lækkaði varð hann hryggur. Jafnvel öruggt gengi á Japansmarkaði gat ekki glatt hann, þegar gengi Dáv Djóns fór lækkandi. Þá sagði hann kannski við sjálfan sig: ,,Þú getur huggað þig við Fútsí". En ekkert kom í staðinn fyrir Dáv Djóns. Hún hafði verið á uppleið allan síðasta áratug og riddarinn var alltaf glaður. Hann var áreitislaus við fólk og átti það jafnvel til að sína af sér vinarhót á tímabili í þenslunni. Riddarinn taldi sig þokkalega lukkaðan. Allavega eftir að hann vann í sínum málum. Hann lét engan vaða yfir sig né inn á sig. Vaknaði á morgnana og leit í spegil og sagði: ,,Spegill, spegill, herm þú mér, hvernig maður speglast hér". Og spegillinn svaraði að bragði: ,,Þú ert æðislegur og átt skilið velgengni". Svo tékkaði hann á Dáv Djóns og athugaði hvernig dagurinn yrði. Kvaddi spegilinn: ,,You sexí bíst" sagði hann oft glettnislega um leið og hann vinkaði speglinum. Hann leit á Rolexúrið, sagði konunni sinni gjarnan að hann væri að fara á áríðandi fund, hitta menn, greip bíllyklana og startaði (ágætum Ford Mercury turbo galant nýjustu árgerð). Honum leið best akandi. Meðan hann ók bílnum sínum, fannst honum margir taka eftir sér og hann var nokkuð viss um að þeir hugsuðu með sér: ,,Helvíti er hann ákveðinn þessi". En hann lét sem hann tæki ekki eftir neinu og einbeiti sér að stýrisbúnaðinum.
Eitt sinn er hann var að díla í kauphöllinni kom til hans gömul norn. Hún var frekar þreytuleg til augnanna, sem störðu gömul út um strekkt andlit. Hún var með gamaldags lagningu í heilsárskápu með Dior-slæðu um háls. Allt benti til þess að hún væri heimavinnandi. Hún mælti hrjúfri wiský-röddu: ,,Þeir sem hafa grabbað nægju sína, þurfa nú flestir eitthvað sem stillt getur mesta kvíðann og leiðindin. Og hvað með samviskuna hvernig gengur það uppgjör?".
,,Samviskan", sagði riddarinn heiðum rómi, ,,þarf að vera að spá í hana prívat og persónulega?" Það var fullkomlega löglegt þegar ákveðið voldugt innflutningsfyrirtæki undirbauð föður minn æ ofan í æ í öllu hans vesæla sprikli. Hann bara mátti ekki uppá dekk. Það var þá sem ég tók þá ákvörðun að halda mig í sigurliðinu. Þegar við lentum á vonarvölnum".
,,En þar blundar þó vonin", sagði kerlingarmeinhornið, settist á bak hreysiketti sínum og hvarf inní himininn. Hann horfði flissandi og vandræðalegur í kringum sig áður en hann tók sér taki og lét sem ekkert hefði í skorist og tékkaði á Dáv Djóns. Það var ekki um að villast. Meðan á þessum samræðum stóð hafði Dáv djóns hrunið niður í sögulegt lágmark.
Það þyrmdi yfir riddarann. Hann fann máttinn fjara úr líkama sínum og rétt gat skreiðst útí bíl. Hann spurði baksýnisspegilinn veikum rómi um stöðuna, en þar mætti honum ísköld þögn og afskræmdur kerlingasvipur sem minnti óþægilega á nornina. Hvert átti hann að fara? Hvert átti hann að keyra Ford Mercury turbo galant? Venjulega hefði hann startað og keyrt í klúbbinn sinn, kíkt á fjármálablöð og spjallað við strákana. Hann lagðist fram á stýrisútbúnaðinn og grét.
Kom þá aftur til hans kerlingarnornin, stakk upp í hann smjörklípu og mælti hásum rómi: ,,Hér ríður þú um héruð í fullum herskrúða engum til gagns".
,,Hvað starfar þú?" spurði riddarinn, sem hafði fengið örlítinn mátt úr feitmetinu.
,,Randsaumaðir keppir flatmaga á ísaldarstigi í syngjandi helli mínum. Heitar gufur úr seiðpotti, sultukrukkur í röðum".
,,Hvað viltu mér"? spurði riddarinn.
,,Hér ráfum við um örlöglaus í fjörbrotum deyjandi stétta", mælti nornin.
,,Já en ég er fjárfestir", sagði riddarinn veikum rómi.
,,Fé þitt virðist ekki hafa fest sig, heldur fuðrað upp og komdu nú með mér í kofann minn, kann ég vel við marga eiginleika þína, sem nýst gætu í fyrirætlanir mínar".
Viljalaus fylgdi riddarinn kerlingu út í skóg. Í kringum kofa hennar var mýrargróður og mannhæðaháir fjalldalafíflar drúptu þar höfði. Var sem riddarinn rankaði úr doða sínum við hárfínt fuglatíst músarindils er þar skaust fram úr fylgsni sínu og hrópaði af lífs og sálar kröftum: ,,Neyttu einskis!" Til allrar hamingju reyndist óp músarindilsins utan skynsviðs nornarinnar, sem var um það bil að lokast inni í skynfæraskorti eins og títt er um nornir.
Gekk riddari okkar nú til rekkju í kofa kerlingar, þóttist éta það sem fyrir hann var lagt, en hafði allan vara á. Lét sem hann svæfi en hélt öðru auganu opnu. Varðist hann þannig álagasvefni. Horfnir fjárfestar voru á vappi um kofann, kerlingu til yndis og þjónustu. Um nóttina sér hann nornina gera að nokkuð þekktum fjárfesta og vinna úr honum afurðir, sem hún sauð í potti sínum, pakkaði í neytendapakkningar og lagði í frystikistu. Með hjálp músarindilsins, (sem dró að sér athygli kattarins og kerlingar með), komst riddarinn óséður aftan að hyskinu og tókst að hrinda bæði norn og hreysiketti ofan í seiðpottinn. Vöknuðu þá fjalldalafíflarnir í garði kerlingar og kom í ljós að þeir voru dugandi fjárfestar í álögum. Hafði kerlingin náð þeim á sitt vald á soft augnablikum þegar gengi bréfa þeirra var í lágmarki. En músarindillinn reyndist bara réttur og sléttur músarindill sem var kominn með upp í háls af hreysikettinum. Verða fjárfestarnir frelsinu fegnir og flaðra upp um riddarann og kyssa á báðar kinnar.
Hirðir riddarinn nú gull kerlingar, stígur upp í Ford mercury túrbó galant og leggur af stað heim á leið. Sér hann í hendi sér að Dáv djóns dugi sér lítt til lífsgrundvallar og valt sé á henni völubeinið. Íhugar hann alvarlega á heimleiðinni að skrifa metsölubók um það sem fyrir hann hafði borið.
Komst annálsritari yfir glefsur úr handritinu og hafði til hliðsjónar við frásögn þessa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Klassa saga! Hún nær samfélaginu í dag alveg! Svona ævintýri af því sem hefur verið að gerast. Kveðja, Helgi

Helgi (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 22:28

2 identicon

djöfull ertu flottur...en samt svo ruglaður!!!!!!!!;)

kv. NÍAN

p.s ertu á lausu eða? nei bara forvitinn

AR (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 09:24

3 identicon

Klárt meistaraverk ! takk fyrir skemmtunina :)

Erna Vestmann (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 15:22

4 identicon

Sígild greinilega.

Ásdís Thoroddsen (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 17:42

5 identicon

Varð bara að kommenta á þessa sögu því hún er afar skemmtileg. Er búinn að áframsenda hana til vina og vandamanna og fengið góð viðbrögð. Takktakk

Kári Þór (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 22:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Gleðigjafinn

Sigurður Eggertsson
Sigurður Eggertsson
Ég er ungur og bjartsýnn og það blessast allt hjá þessháttar gæja, nema hvað.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband