Leita í fréttum mbl.is

Saga úr Aukaverkunum Halldóru Thoroddsen

Mamma var að gefa út nýja bók nýverið, Aukaverkanir að nafni, og finnst mér upplagt að birta hér eina af sögunum 40 sem er að finna í bókinni. Eru þetta stuttar sögur úr samtímanum umluktar ævintýrabrag. Sagan hér er sú fyrsta sem mamma las upp fyrir mig og er því við hæfi að þetta verði fyrsta sagan sem þið lesendur góðir fáið að njóta. Endilega látið mig vita hvernig ykkur finnst.

---Njörður, Eiríkur og Helgi---

Einu sinni voru karl og kerling í koti sínu, þau áttu sér þrjá sonu sem hétu Njörður, Eiríkur og Helgi. Sá elsti var með Asberger-heilkenni, sá í miðið ofvirkur, en hinn yngsti var allra hugljúfi. Þegar hjúin voru tekin að reskjast kalla þau sonu sína fyrir sig og segja: ,,Nú eruð þið komnir á legg og getum við ekki fætt ykkur og klætt lengur. Skuluð þið halda út í víða veröldina og reyna að komast áfram upp á eigin spýtur”. Bræðurnir tóku þessu vel og kvöddu foreldra sína. Héldu þeir nú í hann með nesti og nýja skó og er þeir koma að fyrstu vegamótum skiljast leiðir. Þar greindist vegurinn í þrjár áttir. Aðalstræti beint framundan, Njarðargata í vesturátt og Glapstigu lágu þar nærri.
Sá hinn elsti sem Njörður hét gekk Njarðargötu, sem leið lá í Sílíkondalinn að sýsla við tölvur. Hann grúfði sig strax yfir skjá til að þurfa ekki að halda uppi samræðum, því eftir erfiða vegferð um mannheima var hann á stöðugum flótta undan kröfunni um létt spjall. En Sílíkondalurinn var sæluríki þar sem enginn hafði áhyggjur af léttu spjalli, heldur einbeittu menn sér að skjá, þar sem náttúruskrímslið var víðsfjarri og allt gat gengið upp sem reiknisdæmi. Í fyrsta sinn í veraldarsögunni fengu hans líkar þau völd sem þeim bar, enda einu mennirnir sem gátu komið einhverri smáskikk á þennan glundroða sem lífið var. Þeim var falið að búa til forritin sem mannkynið skyldi vinna eftir liðlangan daginn. ,,Við hönnum á tilfinningarverunum hausinn og þar með veröldina.”, sögðu nirðirnir eins glaðir og þeim var unnt. Í þessum yfirskyggða dal voru hans líkar og fann hann sér brátt prýðiskonu sem kvaldi hann ekki með tilfinningarugli og gat hann við henni börn.
Miðbróðirinn Eiríkur fór Aðalstræti. Sá hann í svip öll þau tækifæri sem ónotuð lágu fyrir fótum hans í fjármálaheiminum. Fyrst reyndi hann sig við eyturlyfjasölu ákaflega ábatasama en fikraði sig síðan inn á löglegar brautir féfléttingar. Virtist honum auðsýnt hvernig auðurinn sogaðist linnulaust frá hinum lægstsettu til hinna efnameiri eftir lögskipuðum brautum og því óþarfi að stunda áhættuhegðun þegar aldurinn færðist yfir og ofvirknin dvínaði. Varð hann brátt mikill maður í mannheimum, gekk að eiga fegurðardís og hélt auk þess margar hjákonur sem hann sá vel fyrir og klæddi í dýrustu merki. Eignaðist hann mýgrút afkomenda sem fengu sitt fyrirtækið hvert.
Víkur nú sögu að yngsta bróðurnum Helga (sem var allra hugljúfi).
Hann var fagur á að líta, augun stór og hrekklaus, húðin silkimjúk og varirnar bólgnar af æsku. Hann hreyfði fagra limi sína eins og foli. Þokkafullur og markviss gekk hann glapstigu og reyndi fyrir sér sem launþegi. En hvernig sem hann vann áskotnaðist honum þó ekki nægt fé til þess að reisa sér þak yfir höfuðið, heldur nægðu verklaun hans aðeins fyrir fæðu og herbergisleigu. Ljúfmennska og persónutöfrar drógu skammt í makaleit því konur misstu jafn skyndilega áhugann og hann hafði kviknað, er þær fylgdu honum inn í forstofuherbergin sem hann hafði til afnota. Sáu þær sem var, að svo lélegur skaffari mundi lítt fallinn til undaneldis. Tekur hann það til ráðs að leita í hjónabandsmiðlun og finnur sér þar konu sem þýðist hann til að slá á mesta einmanaleikann og kvíðann. Reynist ráðahagurinn auka á eymd þeirra beggja og hrepptu þau skötuhjúin margan byl.
Fyrir þrábeiðni konu sinnar brýtur Helgi odd af oflæti sínu og bankar þrjú högg á hús Eiríks hins auðga og biður bróður sinn um aðstoð í kröggum sínum. Tekur hann þeim ljúflega og býður þeim bæði bíla- og húsnæðislán með okurvöxtum. Skyldu þau vinna fyrir þeim í fjörutíu ár. Una þau skötuhjúin vel við sitt um stund. En er lánabirgðin er að sliga þau, segir kerling þetta ekki duga mundu og ,,þurfum við að fá afkastahvetjandi forrit til að vinna við til þess að mæta vöxtunum". Fara þau nú til Njarðar og nauða í honum um aðstoð. Hannar hann fyrir þau afkastahvetjandi heildarlausn til að efla iðju. Taka þau viðbótarlán hjá Eiríki og borga Nirði forritin. Sitja þau nú öllum stundum fyrir framan skjáinn Njarðarnaut til þess að borga Eiríki lánin og afla fjár til að uppfæra forritin.
Hrósa hjónakornin happi yfir batnandi gengi og hola niður tveimur afkvæmum og tekst með ráðvendni að halda íbúðinni og leggja fyrir auralús. Finna þau skýrt við hvert fótmál hversu þau eiga bræðrunum allt að gjalda. Njörður og Eiríkur hneigðust hins vegar til æ glæfralegri spákaupmennsku á verðbréfamarkaði og þar kom að þeir töpuðu talsverðu fé vegna óskynsamlegra fjárfestinga. Komu þeir hágrátandi til Helga og kerlingar, röktu raunir sínar og segjast þurfa að hækka verð og vexti. Hjónakornin tóku vel í hugmyndina og fannst sjálfsagt að hlaupa undir bagga því bæði var, að þau vildu sýna þakklæti sitt í verki og ekki vildu þau láta hjól atvinnulífsins stöðvast sín vegna. Varð nú aftur kátt í koti og höllu og undu bræðurnir glaðir við sitt, þar til dauðinn leysti þá frá eigum sínum og máði út allan aðstöðumun. Eru þeir jarðaðir í grafreiti nærri vegamótum þeim sem þeir lögðu upp frá ungir menn. Gróið er yfir leiði þeirra og segja kunnugir að sömu grös vaxi frá þeim öllum jafnt; vallarfox, háliða, puntur, sveif, vingull og súra í jöfnum hlutföllum á leiðunum þremur. Lýkur svo þessari frásögn.

(siggi:
Mér finnst því miður ég bera þess merkis að vera næstur honum Helga að náttúru, ekki veit það á gott.)
þar til næst, fokk off
siggilitligleðigjafi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Úff langt blogg maður! Ertu með msn svo maður geti talað við þig? :)

Oddgeir (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 17:23

2 identicon

haha... skemmtileg saga

 veit ekki hvern ég ætti að taka til fyrirmyndar ...

 Ætli Eiríkur sé ekki skemmtilegastur?

 maður spyr sig...

 Robz

Robbi (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 18:14

3 Smámynd: Sigurður Eggertsson

Já það kemur kannski ekki á óvart að Eiríkur heilli þig minn kæri viðskiptafræðinemi:)

Sigurður Eggertsson, 19.11.2007 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Gleðigjafinn

Sigurður Eggertsson
Sigurður Eggertsson
Ég er ungur og bjartsýnn og það blessast allt hjá þessháttar gæja, nema hvað.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 1310

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband