13.2.2008 | 19:52
Fagmenn í Fóðurleit; Asía
Eftir indælan snæðing á Indókína í síðustu heimsókn okkar fagmanna biðum við í ofnæmi eftir að komast til Asíu.
-Fagmenn í Fóðurleit-
-út að borða með Lionel-
Asía
Borðað:Asíuvagninn - hlaðborð með 6 réttum: Kjúklingur í engiferkryddaðri lakkgríssósu,kjúklingur í karrýsósu, kjötbollur í brúnni, núðlur, súpa og hrísgrjón.
Gæði fæðis: Það eru töluverðar líkur á því að kjötbollurnar sem boðið var upp á séu þær sömu og voru á boðstólum hjá móðurömmu Lionels Ritchie fyrir 15 árum síðan, þær hafi einfaldlega verið hitaðar upp aftur. Núðlurnar voru ekki núðlur, þær voru spaghetti. Kjúklingaréttirnir voru spennandi til að byrja með en strax á þriðja bita komst upp um svikin. Það má líkja neyslu réttanna við að lesa 400 síðnabók sem byrjar spennandi en strax á blaðsíðu 11 stendur: Þú getur alveg sleppt því að lesa meira því það er ekki nokkur skapaður hlutur að fara aðgerast.
Verð: 1200 karl.Alltílæ.
Stemning: Fallega skreyttur staður þar sem hádramatísk asísk ástarlög ómuðu yfir matnum.
Þá tilfinningaþrungnu stemningu sem asísku ástarlögin sköpuðu náðu kraftlyftingamenn á næsta borði algerlega að troða niður í svaðið með eldheitum umræðum um fæðubótarefni og hnébeygjur.
Þjónusta: Þreytt og metnaðarlaus þjónusta. Sjálfsafgreiðsla á hlaðborði þýðir ekki að viðskiptavinir séu ekki til. Bókin sem afgreiðslumaðurinn las var greinilega meira spennandi (að hans mati) en sjálfir fagmennirnir. Slíkt er fáheyrt. Gott dæmi um metnaðarleysi er að bjóða upp á 6 rétta hlaðborð og telja hrísgrjón og núðlur sem sér rétt.
Dollan: Beisk hlandstækjan býður mann óvelkominn. Það má leiða líkum að því að gólfið hafi verið skúrað upp úr þvagi. Einkadollan er aðeins skilrúm inn af megindollunni og brýtur það klárlega á friðhelgi einkalífsins. Ekki laust við að maður væri smeykur að hýrast einn á þessari guðlausu dollu.
Kennaraeinkunn:Ekki upp á marga fiska. 16 fiskar.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:55 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 1310
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.