Leita í fréttum mbl.is

16 júlí. 15 júlí verður ekki getið sökum leiðinda

Lögðum af stað frá Nairobi til Masai Mara klukkan níu um morguninn. Við vorum sóttir af risa LandCrusier og húsbónda hans, honum Wilson. Ásamt Wilson voru Dickson kokkur og Ester kona með í för. Þeir sjö tímar í bílnum hljómuðu virkilega illa en reyndin varð önnur enda spennandi og viðburðarrík ferð.
Eftir um klukkutíma akstur keyrðum við fram á bíl sem virtist hafa keyrt út af veginum og oltið niður í hlíð. Fjöldi fólks var samankomið fylgjast með sem og fimm lögreglumenn með alvæpni. Þeir stoppuðu okkur og sögðust þurfa að sitja í smá spöl upp að næsta þorpi. Þegar við nálguðumst þorpið sáum við að þar var ekki allt með feldu. Við útmörk þropsins höfðu á að giska tvö hundruð manns tekið sér stöðu. Er við nálguðumst skipuðu menn okkur að snúa við. Æstur mógur var að mótmæla og var það var búið að loka veginum með steinum og greinum. Við stöðvuðum bílinn og þá gerðist nokkuð sem fékk adrenalínið til að flæða. Lögreglumennirnir fimm í bílnum hlóðu byssur sínar og þustu út. Múgurinn tók á rás og löggan á eftir. Alt í kringum bílinn var mikið kaos. Lögreglumennirnir náðu einum gaur og héldu honum. Lögregluforinginn gekk til hans og gaf honum vænt kjaftshögg áður en hann tók í hann og fór að öskra á hann. Lögreglan fjarlægði hindranirnar af veginum og við héldum aftur af stað, dulítið titrandi.
Ekki höfðum við ekið lengi uns við vorum stoppuð af öðrum löggum og Wilson tjáð að hann hefði ekið eitthvað ranglega. Algjör vitleysa og hann reyndi í fyrstu að þræta fyrir það en löggan tók rök hans ekki gild. Hún tók hinsvegar mútur hans fullgildar og við sluppum án sektar. Stuttu síðar ókum við fram á trukk sem hafði oltið á hliðina og góður slatti fólks horfði á. Ekki höfðu við ekið lengur en fimm mínútur þegar við ókum enn og aftur fram á slys. Frekar slæmt slys af aðstæðum að dæma en þarna var vörubíll vel klesstur og flutningabíll með tengivagn hafði farið í gegnum vegrið og runnið niður hlíðina, hlíð sem er í 2000 metra hæð yfir Sigdalnum mikla þar sem fyrsti maðurinn gekk um. Sigdalurinn er svona eins staður og Þingvellir, stór hluti af Afríku er að losna og reka frá meginflekanum. (9.5 í náttúrufræði í H.Í.) Við stoppuðum rétt við slysið og tókum túristamyndir niður í dalinn.
Nestisstopp tókum við á einhverjum stað er seldi útskorna muni. Margt mjög fallegt þar að sjá en útskurðarmennirnir voru allt of ágengir og við hálfhrökkluðumst út með því loforði að koma aftur á leiðinni heim. Það loforð munum við svíkja blygðunarlaust. Aftur héldum við af stað en ekki leið á löngu þar til tekið var pissustopp því Magnús mígur meir en hundur á kvöldgöngu. Þegar við stoppuðum komu fjögur börn og stóðu álengdar við bílinn. Ég brosti til þeirra og þau nálguðust. Þá gerðist nokkuð skemmtilegt. Allt í einu hlupu börn úr öllum áttum að bílnum og var bíllinn þvínæst umkringdur. Ég opnaði bílhurðina og gekk út í hópinn vopnaður haribo-gúmmíböngsum. Það vakti jafn mikla hrifningu og trylling. Það var líkt og börnin hefðu aðeins heyrt um sælgæti í ævintýrum. Allir fengu þó eitthvað að lokum og vinkuðu okkur alsæl í sykursjokki er við tókum af stað. Eftir því sem við nálguðumst Mara þjóðgarðinn fór að bera á fleiri dýrum. Við sáum hóp apa og endalaust af hjarðdýrum. Eftir rúma sjö tíma komum við loks ti Masai Mara. Ég bjóst við að keyra inn um hlið og svo um merkta vegi en því var víðsfjarri. Við vorum allt í einu komnir út á steppu og þar mátti barasta keyra út um allt í leit að dýrum. Við keyrðum fram á hóp gíraffa og tugþúsundir hjarðdýra. En það voru þó helst kjötæturnar sem heilluðu okkur. Þær voru á dagskrá morgundagsins.
Við sáum í fjarska mann gangandi á steppunni. Við stefndum til hans og hann reyndist vera íbúi þarna og um leið leiðsögumaður okkar. Þarna var kominn Jackson (Mickael?). Þeim manni mun seint líða okkur úr minnum enda litríkur karakter með eindæmum. Hann vippaði sér upp í bílinn og við keyrðum inn í kjarr. Þar tjölduðum við og kveiktum eld. Eldurinn ásamt Masai stríðsmanni með spjót átti að beina svöngum villidýrum frá tjaldi hvítu safaríku mannanna. Við sáum fram á að sofna áhyggjulausir. Við eldinn hlustuðum við á Jackson segja sögur fram á kvöld og við Magnús sungum íslensk þjóðlög fyrir liðið. Við sofnuðum við ískyggilega nálægan hýenuhlátur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Gleðigjafinn

Sigurður Eggertsson
Sigurður Eggertsson
Ég er ungur og bjartsýnn og það blessast allt hjá þessháttar gæja, nema hvað.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband