11.8.2008 | 19:54
21 júlí
Vöknuðum álíka snemma og eldurinn og stukkum upp í rútu. Snorkl og höfrungaskoðun var á dagskránni þennan daginn. Rútuferðin tók um tvo tíma og enduðum við að ég held við Diani-ströndina. Þaðan var svo siglt út í óvissuna í bát sem skapaði enn meiri óvissu. Í gegnum sjóveikina skynjaði ég slatta af höfrungum í kringum bátinn. Einn þeirra var með tattúverað "Flipper" á síðuna og hlýtur að hafa verið foringinn. Loks komum við út að eyju nokkurri og hófumst handa við snorkl. Endalaust af litskrúðugum fiskum sem voru gælnari en kettlingar og heimkynni þeirra, kórallarnir, voru svipað gæfir. Þetta og meira til blasti við okkur undir spegilsléttu ljósbláu yfirborðið. Eftir fiskaklapp og kórallaklifur héldum við upp á eyjuna sem var á stærð við fótboltavöll og hulin gullnum sandi. Þar efldum við sortuæxlismyndun í líkömum vorum í dágóða stund uns við fórum aftur um borð. Við sigldum á aðra eyju og þar var boðið upp á, að sögn viðstaddra, dýrindis krabba og fisk (sjálfur gæddi ég mér á uppþornuðum kjúlla). Eftir matinn röltum við um þorpið. Við Magnús rústuðum litlum börnum í fótbolta við ómælanlegar vinsældir þorpsbúa. Svo kíktum við á magnaðan kórallagarð sem stendur við þorpið. Að lokninni göngu um garðinn þar sem flugu ófáir brandarar um samferðafólk okkar var haldið heim á leið. Um kvöldið fórum við á stúfana í leit að vönduðum veitingastað. Hann fundum við svo sannarlega og sofnuðum afmyndaðir af áti.
P.S. Magnús vill bæta við frásögn þessa að í dag hafi hann ekki einungis læknað mig helsjúkan af sjóveikinni heldur gekk hann einnig á vatni og fæddi nauðstadda drengi. Þarf frekari vitnanna við? Ef einhverntíman hafi leikið vafi á því þá var honum klárlega eytt í dag. Magnús er sannlega sonur guðs endurfæddur. Og ég fylgi honum hvert fótmál og skrái niður ferðir hans, gjörðir og dæmisögur. Hver veit nema þessi litla dagbók, Sigurðarguðspjallið, gefi mannkyninu von og trú á komandi tímum. Annað eins hefur nú gerst.
Staðreynd um Kenya; þú færð aldrei alveg það sem þú pantar á matsölustað.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.