29.8.2008 | 11:13
28 júlí, síðasti dagurinn í Kenya
Síðasti dagurinn í Kenya var runninn upp. Sú sorglega staðreynd að honum skuli varið í Nairobi blasti við. Við Magnús vorum komnir hálfa leiðina heim í huganum og undum okkur engan veginn þennan síðasta dag. Ég var hálf tussulegur í hausnum og hitinn, þrátt fyrir góðan vilja, gerði aðeins illt verra í þeim efnum. Við fórum niður í miðbæ og inn á þjóðminjasafnið. Þar var lítið merkilegt að sjá fyrir okkur enda höfðum við séð flest, sem þar var boðið upp á, í eigin persónu í ferðalagi okkar. Einnig hafði okkar leiði bílsjóri Ben sagt okkur rangt til með verðið inn á safnið en það reyndist mun hærra en lög segja til um. Það var reyndar hræódýrt ef maður er Kenyabúi og reyndi ég mitt besta í að sannfæra miðasöludömuna um að ég væri borinn og barnfæddur í Kenya en hún tók engum rökum. Maður er dæmdur af útlitinu einu saman. Veit fólk ekki að ég er svört sál föst í fölum líkama? Eftir afar leiðinlega safnferð fórum við að eta og eins og venjan er hér um slóðir stemmdu þeir réttir er bornir voru á borð engan vegin við þá rétti er pantaðir voru. Engin nýlunda þar á ferðinni. Að áti loknu fórum við á stúfana að leita að kenysku lögunum er höfðu ómað í eyrum vorum alla ferðina. Fundum við lögin og hlustum nú ekki á aðra tónlist. Mæli með að þið hlustið á eftirtalin lög og þá sér í lagi millikaflana í fyrstu tveim lögunum.
http://www.youtube.com/watch?v=I5rtV3s1lMw&feature=related
http://www.youtube.com/watch?v=X5DwZlF8_58
http://www.youtube.com/watch?v=xzOoXYkO9TQ
http://www.youtube.com/watch?v=5kdJ99UjkPY&feature=related
Fyrsta lagið er langvinsælasta lagið í Kenya um þessar mundir og fjallar um heyrnalausa stúlku (binte kiziwi) en ég var heitastur fyrir næstfyrsta laginu, Furahiday, en það þýðir gleðidagur en er borið fram mjög líkt og friday. Geggjaður millikafli sem ég vil að fari að heyrast á öldurhúsum bæjarins. Eftir bæjarstúss var farið heim og slakað á en um sexleitið var haldið af stað á Carnivors en það er veitingastaður sem sérhæfir sig í furðulegum steikum eins og krókódíl og strút. Það er all you can eat stemmning þarna og þá stemmningu nýtti ég mér óspart. Át yfir mig af lambi, nauti, kjúklingi, svíni, strúti og krókódíl. Krókódíllinn var dáldið eins og að fiski og kjúklingi hefði verið blandað saman. Bragðgóður til að byrja með en varð verri með hverjum bita. Að þessu loknu var haldið á flugvöllinn, upp í vél og Kenya kvödd. Sáttir og þreyttir. London beið okkar félagana.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:15 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.