Færsluflokkur: Menning og listir
2.8.2008 | 16:50
13 júlí
Eftir um tveggja tíma reið (engin nýlunda þar af minni hálfu) komum við að litlu þorpi. Þegar við vorum nýkomnir inn í þorpið dró fyrir sólu og eldingar lýstu upp himininn. Upplýstir himnarnir féllu síðan yfir okkur og við þurftum að leita skjóls. Skjólið samanstóð af sitthvorum moldarkofanum er mígláku báðir tveir. Við Magnús hýrðumst í sitthvorum kofanum í dágóða stund og biðum þess að veðrinu slotaði. Ekki veit ég hvern óskundan Magús baukaði í sínum kofa en ég var allavega duglegur að spjalla við þá kofbúa er voru innlyksa með mér. Þarna stóð ég með regnhlíf, í regnstakk, inn í moldarkofanum og allt í kring voru börn sem aldrei áður höfðu litið hvítan mann og störðu í forundran. Við tókum svo lagið saman en texti þess var bón til sólarinnar að láta sjá sig. Viti menn, rættist ekki bónin og við héldum á ný undir beran himinn.
Þegar út var komið fræddu leiðsögumennirnir okkur um þessa ættbálkatýpu en hún var aðallega í því að smíða úr járni. Spjótagerð var aðalsportið og var alt morandi í spjótum af ölum stærðum og gerðum í þorpinu. Við splæstum í stykki hvor og gengum því vopnaðir úr þorpinu. Er úr þorpinu kom upphófst nýtt ævintýri.
Kameldýrin geðprúðu fíla illa vætu svo þeim var komið í skjól á meðan við heimsóttum þorpið. Hvert var hinsvegar á reiki! Við fórum að leita dýranna í fylgd eins af Sambúru-mönnunum. Hinir tveir voru hjá dýrunum. Mennirnir voru í símasambandi en það dugir skammt að segjast vera rétt hjá tré og sá í fjall. Leitin að dýrunum stóð yfir í góða þrjá tíma við afar erfiðar aðstæður. Vegna rigningarinnar var allur jarðvegur gegnsósa og sleipur eftir því. Einnig höfðu ár myndast um öl lönd sem við þurftum að vaða upp í mitti. Við gengum fram a sebrahræ sem sannaði hina notalegu nærveru ljóna þarna á sléttunni með okkur. Það var því mikil öryggistilfinning að bera spjótin góðu. Á leið okkar hittum við slatta af villtum kameldýrum og trylltum bavíönum. Eftir langa og stranga göngu fundum við loks dýrin blíðu og gæslumenn þeirra og við áðum uppgefnir. Við reistum tjöld, kveiktum eld og biðum matar. Í kvöldsólinni áttuðum við okkur á þeim einstaka stað er við höfðum lent á og drukkum hann í okkur. Klukkan hálf átta var skollið á niðamyrkur og við sátum og horfðum á eldinn. Við skriðum loks upp í holdvota svefnpoka og féllum í ómegin.
1.8.2008 | 16:58
12 júlí
1.8.2008 | 16:39
11 júlí, sá 10 var glataður og hans óþarfi að geta frekar.
Í dag héldum við af stað í ferðalag. Stefnt var norður á bóginn og ætlunin að fara á úlfaldareið með Samburu-mönnum í Maralal. Þetta er talsvert ferðalag og er það tekið í áföngum. Í dag héldum við að Thompsons Fall. Við tókum dvergrútu troðna fólki og sátum í henni góða þrjá tíma eftir hinum gríðarvinsælu vegum Kenya. Það eru holur í holunum á vegunum í Kenya. Vorum stoppuð sex sinnum á leiðinni af hinni spilltu lögreglu landsins. Í hvert skiptið þurfti að múta þeim blessuðum. Það stóð í kenysku dagblaði að löggan í Kenya gæti fengið verðlaun fyrir spillingu. Það þyrfti hinsvegar að múta lögreglumönnum til að taka við þeim. Á leiðinni spjölluðum við við predikara sem hló að þrengslunum og sagði að guð hefði blessað hann með löngum löppum. Lappirnar fóru ekki frá höku hans alla leiðina. Loks komum við að Thompsons Fall. Þetta er staður sem er eins og klipptur út úr nýlendutímabilinu. Allt voða lekkert og evrópskt innan girðingar en utan hennar standa glorhungraðar túristabúðirnar í von um seðilbita til að seðja það sárasta. Náttúra staðarins er þó dýrðleg. Staðurinn ber nafn sitt af gríðar fossi í bakgarðinum. Hægt er að klífa niður að honum og ganga niður með ánni. Við og gerðum. Fossinn er á að giska hundrað metra hár og áin sjálf liðast niður hitabeltisfrumskóginn. Við tipluðum á steinum árinnar í dágóða stund uns ég féll í ána og þrumuveðrið skall á. Þetta tókum við sem tákn og héldum til baka. Þegar við loks komum upp aftur fórum við í flóðhestaleit. "Flóðhestar valda fleiri dauðsföllum í Afríku en nokkur önnur spendýr. Þótt flóðhestar virðist silalegir eru þeir afar árásargjarnir og þola mjög illa óviðkomandi einstaklinga nærri hjörðinni" (Tekið af Vísindavef Háskóla Íslands). Þessar ljúfu skepnur áttu víst að leynast rétt fyrir ofan fossinn. Flóðhestarnir virtust vera feimnir við hvíta manninn því ekki lét hann á sér kræla. Að leitinni lokinni lögðumst við til svefns
Staðreynd um Kenya: Löggum þarf að múta við allar kringumstæður óháð eigin gjörðum.
31.7.2008 | 20:51
9. júlí
Menning og listir | Breytt 1.8.2008 kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.7.2008 | 20:29
Afríka, komudagur, 8 júlí.
Þann 8 júlí lentum við Magnús í Nairobi, höfuðborg Kenya. Okkar kæri Rufus sótti okkur á flugvöllinn og keyrði okkur út í nóttina. Á leiðinni vorum við stöðvaðir af löggunni með sína vinalegu hríðskotariffla sem brostu góðlega framan í okkur. Eftir tveggja tíma ferð á misjöfnum vegum beygðum við inn afleggjara sem lá um þorp Rufusar. Það væri stórmóðgandi fyrir vegi almennt að kalla þenan afleggjara veg. Bílinn tók ótal oft uppundir þrátt fyrir að vera keyrður talsvert undir gönguhraða. Loks komumst við þó á leiðarenda, hús fjölskyldu Rufusar blasti við. Okkur létti stórum að sjá svona líka reisulegt hús eftir að hafa mjakast framhjá ótal bárujárnshúshræjum sem jafnvel sóðalegustu geitum biði við. Húsið var fullkomið, ekki aðeins var það á gullfallegum stað heldur var það stórt og búið öllu því er við þurftum á að halda. Klósett og hvað eina, lifestyle of the rich and the famous. Kvöldmaturinn beið okkar og olli engum vonbrigðum. Kjúlli og belja plús slatti af einhverju öðru. Bragðaðist svona líka ljómandi og urðum við okkur til eilífrar skammar sökum áts. Lögðumst við eftir kvöldmatinn til hvílu undir moskítóneti og féllum í dá.
Nótt
Nóttinni verður best lýst í orðinu erfiðri. Það tók auðvitað á taugarnar að sofa undir moskítóeti sem hafði þann hressandi eiginleika að í hvert skipti er ég rumska hefur myndast stórt op sem býður flugur dauðans velkomnar. En það var ekki til að bæta nætursvefninn að um leið og ljósin voru sklökkt kveiknaði á hundunum. Út í garði, undir glugganum mínum, hafast við þrír hundar og virðist sú tala vera lenskan á bæjum í kring miðað við óhljóðin um nóttina. Er hundarnir gengu til náða skiptu þeir bróðurlega við vini sína hanana sem tóku við með fullri raust. Það er nefnilega þannig hér um slóðir að klukkan fjögur að nóttu upphefst keppni milla allra hananna í þorpinu um hver getur myndað sem mestan hávaða. Okkar hani vann. Meðan á þessum skemmtiatriðum hunda og hana stóð reyndi ég að festa svefn í rúmi sem hefði verið hneppt í gæsluvarðhald vegna almennra óþæginda. Rúmið var þó skömminni skárra en bannsettur kuldinn. Já kuldinn! Hér er nefnilega alveg skítkalt á nóttunni og húsin vel opin til að flugurnar komist sem inn. Ég skalf því alla nóttina í einhverju sem kenndi sig við rúm undir fögrum dúett hunda og hana, vafinn í opið moskítónet. Magnús rumskaði hins vegar ekki.
31.7.2008 | 20:07
Ferðafærslur
6.7.2008 | 18:30
Kenjaferðir
Svo orti Megas eitt sinn og geri ég hér orð hans að mínum:
Ég er á förum til fjarlægra landa
að finna þar ástir og meyjar og gull
útþráin seilir mig út yfir hafið
einskis ég sakna því mamma er full
2.7.2008 | 17:50
Með títiprjón sem tippaling-Náraaðgerð nálgast
Nú er það semsé komið á hreint að æðar mínar munu fyllast svefnlyfjum enn á ný. Tíunda aðgerðin er handan við hornið og bíður í ofnæmi eftir að steypast yfir helsjúkt klof mitt. Mörgu ber að fagna með tilkomu blaðsins beitta. Ég ætti að geta farið að að sprikla í boltanum svona tveimur mánuðum eftir lögun klofs míns. Munu íþróttaáhugamenn fagna þín víðsvegar um bæinn. Hátíðarhöldin verða þó langtum háværari frá kvenpeningnum. Honum blessuðum hefur ekki verið sinnt sem skyldi í fjóra mánuði. Þurrkatíðin er ekki eingöngu bundin við hitabeltislöndin sjáiði til.
Þrauka meyjar þurran heim,
þorrið hefur kraftur
En Sigginn til að sinna þeim,
sáttur mættur aftur
Bráðum kemur bleytutíð,
blómin opnast honum
Sinnir síðan hann um hríð
sveinaþyrstum konum.
Sigurður í sumarfíling, sést hérna á mynd
Með títiprjón sem tippaling, talsverð þykir synd.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2008 | 18:22
Hið vinsæla partý-trix
Hjalti og Ingunn eru á leiðinni í mat til mín í kvöld.... sjálfur hef ég aldrei verið mikið fyrir salat.
23.6.2008 | 14:03
Afar öruggt...
Þurfti að finna mér leigenda frá byrjun júní og þar til ég kem heim frá afríkunni, sem sagt í 2 mánuði. Ekki margir sem sætta sig við það að flytja allt sitt hafurtask inn í íbúð og vera þar aðeins í 2 mánuði, onei. Því þurfti ég að ljúga því að íbúðin væri full af húsgögnum og hverskyns þægindum og viti menn, bitið var á agnið.
Fólkið sem beit á agnið er í alla staði stórundarlegt. Fyrir utan að vera tékkneskt par þá finnst þeim ótrúlega spennandi að klæða sig upp sem víkinga og berjast. Þau voru hæstánægð með íbúðina,þrátt fyrir skort á húsgögnum, neti, ísskáp.... öllu! Þetta var draumaíbúð. Í hvert sinn er ég kem með eitthvað í búið dásama þau þann happafeng er þau hlutu í formi leigusala. Þau eiga reyndar ekki fyrir leigunni en það er algjört aukaatriði. Þau segjast munu borga, um leið og þau finna einhvern til að leigja með sér. Svo þegar ég hringi svarar stelpan alltaf með orðunum; hi sweetie, nú eða hi honey. Mjög eðlilegt. Ég vil meina að ég gæti ekki leigt öruggari leigendum. Ef tékkneskir víkingar borga ekki skuldir sínar, hver þá?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar