Færsluflokkur: Menning og listir
19.6.2008 | 19:04
Malaría og martraðir
Við Magnús erum nú búnir að sprauta okkur bak og fyrir til að fyrirbyggja alls konar óværu. Í bak og fyrir er þó kannski ofmat. Sökum bágs fjárhags skiptum við sjúkdómum í tvo áhættuflokka: þá sjúkdóma sem hljóma alveg hræðilega og við erum skíthræddir við og þá sem hljóma sakleysislegar og við teljum að við getum leikið á. Sjúkdómar þeir er sakleysislegir virðast hræða okkur ekki vitund og græddum við fúlgur fjár á því að sleppa þeim aumu sprautum er annars hefðu varið okkur fyrir þeim. Dæmi um þá sjúkdóma sem við tökum sjénsinn á eru lifrarbólga b, kólera, stífkrampi og hundaæði. (Til fróðleiks má nefna að ef maður er bitinn... nú eða bara rispaður af dýri sem er sýkt af hundaæði eru afleiðingarnar þær að heilinn þenst út og kremst inn í hauskúpunni... en hver hefur ekki lent í slíku?)
Enn áttum við eftir að versla malaríutöflurnar góðu. Tvær gerðir taflna koma til greina. Báðar hafa þær aukaverkanir. Sú fyrri kostar fjögur þúsund krónur skammturinn og þær aukaverkanir sem fylgja henni eru þunglyndi og martraðir. Sú seinni ber þær skelfilegu aukaverkanir að hún kostar heilar 30. þúsund krónur!
Það þarf kannski ekki að koma neinum á óvart að ég er strax farinn að kvíða afrísku nóttunum.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.6.2008 | 17:08
Minna en mánuður í að ég fari að leita mér kvonfangs í Kenya!
Nú fer að styttast í ævintýri okkar Magnúsar. Við yfirgefum Ísland 7. júlí og höldum út í óvissuna. Kenya er áfangastaðurinn og þar verður eflaust hægt að finna sér eitthvað til dundurs. Planið er ekki alveg kristaltært en lagt er upp með að fara í safarí, slást við ljón, passa apa, hitta frumbyggja, búa hjá innfæddum, sigla út í eyju og finna mér stúlku(r) til að giftast og barna með tíð og tíma. Þetta er gróft plan en gæti þó breyst... Af öðru, ég er að fara í ómskoðun á morgunn og ef útkoman er sú er ég vænti mun ég leggjast undir hnífinn góða í tíunda sinn á föstudaginn. Ætti maður ekki að fagna sinni tíundu aðgerð? Bjóða vinum og vandamönnum í bjór og svefnlyf? Pæling...
29.5.2008 | 18:55
Hún fékk það líka...
Í miðjum skjálftanum mundi ég eftir sögu úr bókininni "90 sýni úr minni mínu" eftir móður mína, Halldóru Thoroddsen. Er við hæfi að birta hana hér:
Þegar Dagur útskýrði fyrir mér náttúrufyrirbrigði
Árið 1968 reið snarpur jarðskjálfti yfir Reykjavík. Þann morgun sat ég í tíma uppi á lofti í Menntaskólanum í Reykjavík og var nærri orðin undir styttu af afabróður mínum, Sigurði Thoroddsen yfirkennara.
Ég hitti Dag bróður minn uppi á Tröð eftir skóla og hafði hann þá á reiðum höndum skýringu á þessu náttúrufyrirbrigði eins og vanalega. Sagðist hann hafa verið að ónanera í morgunsárið og móðir jörð hefði reagerað með fullnægingu upp á 6 á richter.
Afar öflugur jarðskjálfti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.5.2008 | 18:12
Hversu mikla menningu er hægt að innbyrða á einum degi?
Menning hverskonar hefur löngum spilað stóra rullu í minni skömmu ævi en sjaldan þó jafn ríka og sunnudaginn 25. mæ. Hófst innbyrðing menningar um leið er dagurinn hófst, þ.e. á miðnætti. Ég hafðist við hjá vinafólki mínu og andskotaðist yfir evróvisjón úrslitum eins og aðrir Íslendingar. Andskotaðist yfir þessum austantjaldsþjóðum gefandi hvor annarri stig en lét sem ég tæki ekki eftir því að nákvæmlega það sama átti sér stað á norðurlöndunum. Eftir að ég hristi af mér sjokkið að Barbí og móðir hans hamsturinn höfðu ekki borið sigur úr bítum hélt ég út á galeyðuna í leit að konu með góða grind til að bera mér börn. Á öldurhúsum bæjarins var þá konu hvergi að finna þó leitin hafi staðið lengi yfir og verið ítarleg.
Er ég vaknaði morguninn eftir brann íslenska sólin líkt og aðra daga en að þessu sinni dró ylurinn og birtan alla leið til mín. Í einskærri þrá eftir afleiðingum bruna sólarinnar settist ég upp á býfluguna mína og rann af stað niðrá Vegamót. Þar hitti ég fyrir Sverri og Rósu hans og snæddum við dýrindis hádegisverð. Að loknum snæðingi undir hádegissólinni kvöddumst við og ég steig á ný upp á fluguna og tók einn Laugarveg til að sjá og sjást. Ég renndi niður á Listasafn Reykjavíkur en þar voru statt fólkið er ól mig upp. Í fylgd með fullorðnum fór ég um sýningarsalina og saug menninguna í gegnum skynfærin.
Ég kvaddi fólkið mitt og gekk yfir götuna inn í Kolaportið. Það er alltaf þessi lykt, sem heillar mann og fyllir viðbjóði bæði í senn, sem býður mann velkominn í Kolaportið. Ég gekk um Portið endalangt og reyndi á leifturhraða hins kapitalíska vöruþyrsta smáborgara að greina dýrgripina frá draslinu. Greiningin gekk vonum framar því ég verslaði ég mér þar tvær peysur og greiddi fyrir 700 krónur. Þar gerði ég afar góð kaup eins og mér er einum lagið. Eg unnandi hluta, eins og Megas myndi orða það, yfirgaf Kolaportið með unaðs hlutafýsnarfullnægjuna kraumandi í mér og ákvað að halda á ný á fund foreldra minna. Listasafn Íslands var fundarstaðurinn og nutum við þar sköpunarverka ýmissa listamanna auk ofgnóttar súkkulaðis sem þar var til gjafar.
Ég kvaddi hyskið mitt og hélt á hjólið og stefndi á Hlíðarenda þar sem spánýr Valsvöllur var vígður. Þar hlýddi ég á bandið b.sig og svo einhvern gaur frá Bahama. Ég svindlaði mér inn á einhvern hátíðarmálsverð fyrir fólk sem finnst það vera betra en við hin. Eftir að inn var komið og eftir að hafa étið það mikið að eftir var tekið af nautakjöti og öðru fínerí komst ég á sömu skoðun, við erum svo sannarlega betri en þið hin. Að loknum snobbverð fór ég út til almenningsins sem slafraði í sig pulsur og blandaði geði uns leikur hófst. Valsmenn sigruðu og gerði það stundina á vellinum enn bærilegri. Að leik loknum vespaði ég Sverri heim og fór heim í faðm Magnúsar sem ruggaði mér í svefn eftir vidjógláp.
Sunnudagurinn 25. mæ verður lengi í minnum hafður sem menningardagurinn mikli.
16.5.2008 | 19:28
Hversu leiðinlegt er íslenskt blogg
Þegar maður skimar yfir hið íslenska blogg er ekki margt sem fangar athygli manns, öðru nær. Íslenskt blogg sýnir nefnilega þjóðarsálina í hnotskurn. Og ekki er mikið varið í þá sjón.
Hrútleiðinlegir bloggarar eru meðal þeirra vinsælustu í dag og eru þvílíkur óbjóður að skömm er af.
Af mörgu er að taka en ég nefni fyrstan Stefán Friðrik Stefánsson. Þeim leiða bloggara þykir það aðalsportið að tengja allar bloggfærslur fréttum og endurrita svo sjálfa fréttina. Hversu ófrjór getur maður verið? Stefán vill þó engum illt en er leiðinlegri en frunsa.
Annar hópur sem sér ástæðu til að blogga og fær mikla lesningu að launum er rasistapakkið sem skrifar vart um annað en hve mikið óyndi er af innflytjendum. Þarna má finna þröngsýna rasista eins og Halla Rut og Viðar Helgi Guðjohnsen. Marir fleiri koma til greina og vekur það furðu mína hversu margir samlandar mínir glíma við þann löst að aðhyllast rasisma.
Þriðji og jafnframt leiðinlegasti hópurinn er ofsatrúarhópurinn. Þar fer fremstur Jón Valur Jensson en margir fylgja honum að máli og gera lítið annað en að tala um guð sinn og verja illvirki ísraelsríki.
Verst er þó þegar tveir síðustu hóparnir sameinast og er besta dæmið um það Skúli Skúlason sem ég reit um hér um daginn. Sá maður er annálað ógeð og undir þá skilgreiningu falla einnig þeir er fylgja honum að máli.
En þarf maður ekki að lesa þetta til að skilja þjóð sína til hlítar?
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.5.2008 | 19:38
Margt á döfinni, svo er bara að sjá hvað setur
Kaupa tölvu og tónlistarforrit og fara að semja fleira en dónakarla og grínlög. Neee samt...
Fara til Afríku, skipuleggja þá ferð og það er meira en að segja það.
Stofna fyrirtæki, ótrúlega góð hugmynd sem fær ekki að líta dagsins ljós hér að þessu sinni.
Selja íbúð eða breyta lánum... nú eða bara hækka leiguna! Og í því sambandi: hvað er málið með þessa verðtryggingu?? Gott grín hélt maður en svo er ei. Hún er þarna í fullu fæði við að háma í sig alla mína peninga. Gaman væri ef einhver gæti útskýrt fyrir mér hversvegna verðtrygging er við lýði á Íslandi.
Æ ég verð djöfulli pirraður þegar ég byrja að ræða verðtryggingu eða annað óréttlæti. Eins og ég var kátur þegar ég byrjaði á pistlinum. Ég var kátur sem slátur og hýr sem kýr. Bíddu, jú... er orðinn hress aftur.
Hvaða rugl skrif eru þetta. Þetta hljómar eins og dagbók. Gott að enginn les þetta. Fólk fer einungis á síðuna vegna myndanna. Svona svipað og maður les playboy vegna greinanna,,,, bara akkurat öfugt.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.5.2008 | 14:56
Gott ef þetta er ekki....
....Sigfús Páll Sigfússon, handknattleiksdvergurinn knái. Hann gengur um með svipaðan hálsklút og hefur það að venju að ógna samherjum sínum með kuta ekki allsólíkum þessum á myndinni. Sigfús Páll tapaði víst stórri fjárhæð í póker um daginn og svífst einskis til að koma höndum yfir peninga þessa dagana. Vil ég að gefnu tilefni benda fólki á að reyna ekki að handsama hann eitt síns liðs heldur kalla á vana menn því pilturinn arna er bæði kvikur og árásargjarn.
Ekki ósvipaður illgjörnum geitung.
Myndir birtar af bankaræningja | |
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana. |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.5.2008 | 19:53
Gróft einelti viðgengst í garð Hjalta Pálma
Nú get ég ekki setið lengur á mér. Þögnina þarf að rjúfa og sannleikann draga fram í dagsljósið. Einhverra hluta vegna hefur íþróttafréttamönnum þjóðarinnar verið meinilla við þann ljúfa dreng Hjalta Pálmason. Nú er svo komið að þetta nær engri átt lengur og er farið að hafa áhrif á drenginn góða. Hefur hann jafnvel íhugað að hætta handknattleiksiðkun sökum þessa.
Sumir handknattleiksmenn fá mikla athygli og sumir fá minni skerf af henni. En fyrir fáum er þannig ástatt að árangur þeirra er þaggaður niður eða það sem verra er, úr honum er dregið eins og hægt er. Hjalti Pálmason er, eins og þeir vita sem honum hafa mætt í leik, þrælgóður leikmaður. Íslandsmeistari í fyrra, bikarmeistari í ár og kosinn besti leikmaður Vals fyrir tveimur árum svo eitthvað sé nefnt. Hann hefur verið meðal bestu varnarmanna deildarinnar nú í mörg ár og er einnig ein albesta skytta deildarinnar. En það veit enginn!
Það er nefnilega þannig að árangri hans er jafnan haldið utan kastljósi fjölmiðla og sætir það furðu. Það er sama hvar er borið niður, ef Hjalti nokkur Pálmason hefur átt góðan leik finnst hvergi umfjöllun um leikinn, hvað þá frammistöðu Hjalta. Nú hefur Hjalti spilað aðalhlutverk í Valsliðinu undanfarna mánuði og skorar varla undir 8 mörkum í leik auk fjölda stoðsendinga og góðrar varnarvinnu. En aldrei, ég endurtek aldrei er þess getið neinstaðar. Þetta einelti var kannski fyndið til að byrja með en er nú ekkert nema sorgleg staðreynd.
Ekki nóg með markvissa þöggun fjölmiðla á árangri Hjalta þá gætir einnig lítilsvirðingar í hans garð frá fréttamönnum í beinum útsendingum. Ef fréttamönnum verður á að hrósa honum er það snarlega dregið til baka eða dregið úr því. Fjöldamörg dæmi eru um slíkt og mun ég láta nokkur ummæli fylgja hér að neðan.
"Þvílíkt mark hjá Hjalta... stekkur reyndar ekki hátt..."
"Hjalti hefur komið mjög sterkur inn í seinni hálfleik.... hann er nú ekki 60 mínútna maður"
"Hjalti Pálmason skorar hér" "Nei það var Markús" "Það hlaut að vera"
"Og það er, hahaha, Hjalti Pálmason sem er hér fyrstur í hraðupphlaupi... fer reyndar ekki mjög hratt yfir"
"Hjalti skorar enn... Hann hefur nú verið þekktari fyrir varnarleik hingað til"
"Hjalti Pálmason hleypur hér inn á... hleypur kannski ekki, labbar frekar enda hokinn af reynslu. Einn af þessum gömlu reynsluboltum" (Hjalti var 24 ára á þeim tíma)
"Hjalti neglir honum hérna inn, þvílíkt mark.... hann hlýtur að hafa misst hann"
Þetta er ekkert annað en gróft einelti og á ekki að líðast í þjóðfélagi okkar. Ég vil hvetja ykkur til að taka undir með mér og mótmæla þessarri hneisu. Ég legg til að við stöðvum alla umferð að bílastæðum fjölmiðlanna til að sýna stuðning við Hjalta í verki.
29.4.2008 | 13:38
Stund hins Þétta Oturs
Lengi hefur Þétti Oturinn úr Hafnarfirði verið skömm á íslenskum handknattleik og þó víða væri leitað. Hvarvetna hef ég þurft að afsaka og svara fyrir handknattleiksíþróttina er Jón Karl er á góma. En svo er ei meir. Ekki nóg með að hann sé hættur iðkun og lagstur í át skoraði hann síðasta mark sitt á ferlinum með afar skemmtilegum hætti. Hann sparkaði boltanum með lærinu yfir markvörð í vítakasti og það var dæmt mark. Hér má sjá markið á 39.40 mín. (http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4410212) Samkvæmt ströngustu reglum er þetta ólöglegt en hva... það má alltaf beygja reglurnar í kringum skemmtikrafta sem Jón Karl klárlega sannaði að hann er. Ég viðurkenni því hér með að ég er orðinn einlægur aðdáandi Otursins og mun reyna að líkjast honum meir og meir með hverju tímabilinu.
22.4.2008 | 13:36
Einu ógeðinu færra...
Mikið er gott að vita til þess að hægt sé að grípa inn og stöðva menn sem fara hamförum í hatursáróðri gagnvart ákveðnum hópi fólks. Það kom fyrir að ég datt inn á blogg þessa Skúla er nefnt var því fágaða nafni Hryðjuverk. Maðurinn gerði lítið annað en að æla út úr sér skít og reyndi hvað hann gat að dreifa honum yfir Islamstrú.
Ekkert gott getur hlotist af slíkum áróðri, hann er aðeins til þess fallinn að auka á andúð gagnvart fólki af ólíkum uppruna og menningu sem iðkar ólík trúarbrögð. Slíkt á ekki að líðast í þróuðu þjóðfélagi sem þessu.
Óánægja með lokun umdeilds bloggs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar