Leita í fréttum mbl.is

Ég skil ekki spurninguna

Fyrir þá sem ólmir vilja vita hvað ég er að gera þessa dagana þá langar mig til að upplýsa þá um að ég hef barasta aldrei verið að stússa í jafn miklu og akkurat núna. Mestur tími fer nú í að kenna óhörðnuðum unglingum stærðfræði og líffræði í Hagaskóla. Enn hef ég ekkert út á Hagaskóla að setja og er það von mín og trú að sú afstaða muni ekki ekki taka stórfelldum breytingum. Krakkarnir virðast hlusta og kinka kolli eins og þau skilji en hlutaprófin munu innan skamms draga sannleikann fram í dagsljósið um hvort þau hafi verið að taka eftir eða í raun bara verið að hlusta á ipod og kinka kolli í takt við tónlistina. Ég mun upplýsa ykkur um það innan skamms, ef það fyrra á við. Ef hinsvegar krakkarnir vita hvorki haus né sporð í efninu sem ég hef reynt að matreiða fyrir þau mun sá sannleikur verða þaggaður niður og ef einhver spyr mig um útkomuna úr prófunum segist ég ekki skilja spurninguna.

En ef kennslan væri það eina sem ég væri að gera þá væri sko einhver tími til að blogga einhverja vitleysuna á hverjum degi, en svo er ekki. Mastersnámið tekur einnig sinn toll. Ekki nóg með að maður mæti í tímana, það er ætlast til að maður lesi fyrir þá líka! Og það ekkert smá! Og á ensku! Síðan hvenær hef ég kunnað að lesa ensku? Ekki man ég eftir að hafa lært það og ekki er ég að fara að taka það upp svona á gamalsaldri.

En ef að kennslan og námið væri það eina sem ég tæki mér fyrir hendur rynni lífið ljúflega niður, en svo er ekki. Ég var nefnilega að flytja inn í íbúðina mína og þarf að gera hana aðlaðandi í alla staði til að geta boðið fólki upp á hana. Veggir brotnir, gólf flotað, veggir málaðir, ljósum skipt út, veggfóðrað og IKEA hlutum púslað saman. Og þetta er verið að neyða upp á mann og ekki er þetta ókeypis, onei. Kennaralaunin hrökkva skammt nú á síðustu og verstu. Hver getur til dæmis útskýrt fyrir mér hvernig er hægt að rukka svona mikið fyrir málningu?

En ef að hýbýlaprýðin væru einu útgjöldin þá væri maður nú að lifa hátt, en svo er ekki. Ég þarf nefnilega að fara að kaupa mér bíl. Og kröfur mínar um þann bíl eru strangar. Hann skal vera þokkafullur, lítið keyrður, fæddur eftir aldamótin, skiptir sjálfur á sér og ofan á þetta þarf hann að vera falur undir hálfu milljóninni. Endilega látið mig vita af einhverjum kostakaupum þarna úti því ekki finn ég þau í fréttablaðinu.

En ef kennslan, námið, íbúðin og aurarnir væru það eina, þá sæti ég sæll út á svölum og nyti lífsins, en svo er ekki. Það þarf að taka sér bolta í hönd og kasta honum því næst af öllu afli í net. Og þessa einföldu aðgerð þarf að æfa til hins ítrasta til að sem bestum árangri sé náð. Ég vissi ekki hvað ég var að skrifa upp á þegar ég byrjaði í boltaleiknum. Ég hélt að þetta væri eins og að læra að hjóla. Fyrst þarf að æfa sig en þegar þú ert búinn að æfa þig þá kanntu bara að hjóla og þarft engrar frekari æfingar við á þeim vettvangi. Þú ferð bara að hjóla þegar þú kýst svo. Ég æfði mig í að kasta þessum bolta, núna kann ég það og þá á ég bara að halda áfram að æfa mig í því, kasta boltanum betur, hjóla betur? Þannig að ég eyði góðum 3 tímum í æfingar í boltaleik sem ég þegar kann.

En ef að æfingarnar væru eins auðveldar og þegar maður var lítill þá væri sældin ein að taka þátt, en svo er ekki. Ég er nefnilega ungur drengur í háöldruðum líkama sem þolir álag líkt og köttur vatnsleikfimi. Tíu aðgerðir segja aðeins hálfa söguna, öðrum eymslum er aðeins haldið niðri með góðum skammti af voltaren rapit.

En fyrir utan þetta hef ég yfir litlu að kvarta. Nýt mín.fokk

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hehe ég fæ nú ágætis endurminningar við að hlusta á gamla góða Morulagið

Lena (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 09:10

2 identicon

Tù ert sem sagt madur ì gódri og skemmtilegri vinnu (án hættu á uppsögnum) sem getur valid ad mennta sig meira á háskólastigi, án tess ad turfa ad borga milljónir ì skòlagjöld. Auk tess sem hann á sìna eigin íbùd á hagstædum lánum, sem hann getur innréttad ad vild, og fjárhag til ad leita sér ad bìl ì ofanálag. Og er svo blessadur ad hafa hlotid tá gudsgjöf ad standa framar ödrum ì ìtròttum og geta fengid greitt fyrir tad (ótengt framlagi).

Er einhver væll í tér Siggi minn?

Ingunn (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 15:23

3 identicon

Man einhver símann hjá v***bílnum?

Hjalti (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 23:28

4 identicon

Væri ekki réttast að finna eitt stórt v***hús fyrir Sigurð

Óli H (IP-tala skráð) 22.9.2008 kl. 08:52

5 identicon

Nett mynd, einlæg.

Gunnur m. (IP-tala skráð) 27.9.2008 kl. 18:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Gleðigjafinn

Sigurður Eggertsson
Sigurður Eggertsson
Ég er ungur og bjartsýnn og það blessast allt hjá þessháttar gæja, nema hvað.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband