Leita í fréttum mbl.is

Að gefnu tilefni; Fáfnir og félagar

Fáfnir og félagar

Í góðærinu sem fylgdi nýlendutímanum rumskuðu drekar þeir sem höfðu haft hægt um sig frá úrtíma í hellum sínum og lágu á gulli. Tóku þeir að stækka svo að heimahagar báru ekki. Settust sumir að í leppríkjum til þess að vera sem næst uppsprettunni: Ódýru hráefninu og þurftarlitlum starfskraftinum, en úr allri þeirri orku létu þeir vinna gull sitt. Bólgnuðu þeir svo að kóngar hlýddu hverri þeirra bendingu, því ekki vildu þeir eiga á hættu eldspúandi illsku og sáu líka í hendi sér að gott væri að ríkja í skjóli þeirra. Réðu drekarnir að lokum því sem þeir vildu. Óskir drekanna voru ekki margbrotnar, en því meiri að umfangi. Það sem þeir þráðu var í stórum dráttum það sem dreka hefur alltaf dreymt um: Aðgangur að öllu í þessum heimi sem breyst gæti í gull. Helguðu þeir sér uppspretturnar með einkennilegum löggjöfum studdum furðulegum rökfærslum.

Sat nú heimur allur skjálfandi fyrir drekum þessum og fann engar leiðir fram hjá. Varð yfirleitt að ráði að ganga í þeirra þjónustu eða taka upp háttarlag þeirra þó í litlu væri. Varð það mark og mið ríkja sem í aðstöðu komust að flytja inn fátæklinga eða setja niður umsvif sín í grennd við þá. Hugguðu réttlátir menn sig við það, að smátt og smátt gætu lönd öll ungað út drekum, svo að gjörvöll ríki gætu látið skítverkin minniháttar þjóðum í té. Ekki er alveg ljóst hvernig lokastig þessarar þróunnar var hugsuð.

Víkur nú sögu að Sigurði nokkrum er lá í dvala á Gnitaheiði. Var hann vaskur maður og svo hugaður að undrum sætti. Vaknaði hann dag nokkurn árla og sýndist lítt um dreka þann er hvíldi nú í beði sínum þar um slóðir, eins og ekkert hefði í skorist þeirra í millum forðum daga. Vill Sigurður nú enn frelsa heimahaga sína af ónæði þessu. Telur hann best henta að grafa gröf í veg drekans og miða á hjarta þess sterka kykvendis. Kunni Sigurður fuglamál en sú kynngi hafði fylgt ætt hans mann fram af manni. Þar sem Sigurður liggur í holu sinni heyrir hann af tilviljun grátittlinga nokkra er sátu á rifsviðargrein og spjölluðu um daginn og veginn. ,,Fár er sterkari sínum veikasta viði”, segir einn. ,,Veit ég það”, svarar annar. ,,Drekar eru dýr hégómans”, segir sá þriðji. ,,Virða þarf allar þeirra forsendur ella gufa þeir upp”, segir þá sá er fyrst talaði og flugu þeir svo sína leið. Við þetta rís Sigurður úr holu sinni og sest við net sem náði um veröld alla. Sér hann í hendi sér að vakni nógu margir menn í heiminum morgun hvern til að hlægja að drekunum, muni þeir neyðast til að leggja af þrælahald það er heimurinn horfir blindu auga á og montar sig af að ekkert sé. Verður mikill mannfjöldi við kalli hans að hlægja saman að öllum þeim málsbótum er drekar hafa útbúið sér til eflingar. Við þetta urðu drekarnir hamslausir af bræði. Tóku það til ráðs að leyfa lýðnum að hlægja að sér einn dag á ári en hver sem gerðist sekur um slíkt háttarlag þess utan yrði látinn sæta refsingu öðrum til viðvörunar. Svo fór að Sigurður hundskaðist aftur í dvalann og lýðurinn hélt áfram að tuldra hver í sinn barm.

Þrátt fyrir þessar ráðstafanir setti að drekum óöryggi sem jaðraði við brjálsemi og urðu þeir hér eftir æ viðkvæmari gagnvart minnsta flissi. Þóttust þeir heyra hlegið að sér við hvert fótmál.

Er ofanskráð í stórum dráttum forsaga þess er drekar keyptu upp hlátur mannanna.


mbl.is Staðan verri en af er látið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er afbragðssaga og á vel við núna á þessum síðustu og verstu tímum. En það er ég þó nokkuð viss um að ég hafi lesið hana áður og það í bók Halldóru Thoroddsen, Aukaverkunum. Halldóra er móðir þín geri ég ráð fyrir. En hrós til hennar, góð saga.

Skúli H.

Skúli (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 14:50

2 Smámynd: Sigurður Eggertsson

Jújú mikið rétt Skúli. Sagan er úr bókinni Aukaverkanir eftir Halldóru Thoroddsen sem er, líkt og þú giskaðir svo réttilega á, móðir mín.

Þar sem þú gast rétt hljótið þér vinning og hann ekki af lakari endanum; Útvarpstæki fyrir tvo!! Verðlaunin getur þú sótt í þrotabú helstu fjármálafyrirtækja landsins. Verði þér að góðu.

Sigurður Eggertsson, 21.10.2008 kl. 15:37

3 identicon

Góð saga mæðgin. Það er greinilegt hvaðan þú færð ritlistargáfuna miðað við þessa sögu. P.S. Les alltaf bloggið þitt og hef ótrúlega gaman að.

Harpa Pétursdóttir (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Gleðigjafinn

Sigurður Eggertsson
Sigurður Eggertsson
Ég er ungur og bjartsýnn og það blessast allt hjá þessháttar gæja, nema hvað.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband