Færsluflokkur: Menning og listir
28.10.2008 | 22:09
tvístruð athygli skilar litlu
22.10.2008 | 16:50
Kaupþing og kreppuráð
Sæll Hreiðar Már minn. Nú blasir við þér bláköld kreppan og þá eru góð ráð dýr. Hér eru ráð sem ég og Brendan sambýlismaður minn höfum notast við og er það einlæg ósk mín að ráðin nýtist þér sem best.
Brendan keypti nefnilega 2 kíló af bjúgum sem hann eldaði í hvert mál en nú nýlega fékk ég nóg og verslaði mér hest okkur til góða. Það er nefnilega ekki bragðið sem telur á þessum tímum heldur aurarnir.
Brendan svöngum býður mér,
bjúgu alla daga.
Byrlar hann þau, brytjar, sker,
brjóskið þarf að saga.
Bölvuð mig nú bjúgun trylla,
er boðin eru oss.
Betur myndi belginn fylla,
ef borðað væri hross.
Hér er hagráð fyrir þig
ef hafa skuldir vaxið
Hestana má hakka í sig
hófa, tagl og faxið.
Ef fjárhagurinn farinn er
fjandans til á skeri
Þá fullnægir og fróar þér
falleg lítil meri
Hreiðar Már yfirgefur Kaupþing | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.10.2008 | 22:28
Pæling...
20.10.2008 | 22:26
Að gefnu tilefni; Fáfnir og félagar
Fáfnir og félagar
Í góðærinu sem fylgdi nýlendutímanum rumskuðu drekar þeir sem höfðu haft hægt um sig frá úrtíma í hellum sínum og lágu á gulli. Tóku þeir að stækka svo að heimahagar báru ekki. Settust sumir að í leppríkjum til þess að vera sem næst uppsprettunni: Ódýru hráefninu og þurftarlitlum starfskraftinum, en úr allri þeirri orku létu þeir vinna gull sitt. Bólgnuðu þeir svo að kóngar hlýddu hverri þeirra bendingu, því ekki vildu þeir eiga á hættu eldspúandi illsku og sáu líka í hendi sér að gott væri að ríkja í skjóli þeirra. Réðu drekarnir að lokum því sem þeir vildu. Óskir drekanna voru ekki margbrotnar, en því meiri að umfangi. Það sem þeir þráðu var í stórum dráttum það sem dreka hefur alltaf dreymt um: Aðgangur að öllu í þessum heimi sem breyst gæti í gull. Helguðu þeir sér uppspretturnar með einkennilegum löggjöfum studdum furðulegum rökfærslum.
Sat nú heimur allur skjálfandi fyrir drekum þessum og fann engar leiðir fram hjá. Varð yfirleitt að ráði að ganga í þeirra þjónustu eða taka upp háttarlag þeirra þó í litlu væri. Varð það mark og mið ríkja sem í aðstöðu komust að flytja inn fátæklinga eða setja niður umsvif sín í grennd við þá. Hugguðu réttlátir menn sig við það, að smátt og smátt gætu lönd öll ungað út drekum, svo að gjörvöll ríki gætu látið skítverkin minniháttar þjóðum í té. Ekki er alveg ljóst hvernig lokastig þessarar þróunnar var hugsuð.
Víkur nú sögu að Sigurði nokkrum er lá í dvala á Gnitaheiði. Var hann vaskur maður og svo hugaður að undrum sætti. Vaknaði hann dag nokkurn árla og sýndist lítt um dreka þann er hvíldi nú í beði sínum þar um slóðir, eins og ekkert hefði í skorist þeirra í millum forðum daga. Vill Sigurður nú enn frelsa heimahaga sína af ónæði þessu. Telur hann best henta að grafa gröf í veg drekans og miða á hjarta þess sterka kykvendis. Kunni Sigurður fuglamál en sú kynngi hafði fylgt ætt hans mann fram af manni. Þar sem Sigurður liggur í holu sinni heyrir hann af tilviljun grátittlinga nokkra er sátu á rifsviðargrein og spjölluðu um daginn og veginn. ,,Fár er sterkari sínum veikasta viði, segir einn. ,,Veit ég það, svarar annar. ,,Drekar eru dýr hégómans, segir sá þriðji. ,,Virða þarf allar þeirra forsendur ella gufa þeir upp, segir þá sá er fyrst talaði og flugu þeir svo sína leið. Við þetta rís Sigurður úr holu sinni og sest við net sem náði um veröld alla. Sér hann í hendi sér að vakni nógu margir menn í heiminum morgun hvern til að hlægja að drekunum, muni þeir neyðast til að leggja af þrælahald það er heimurinn horfir blindu auga á og montar sig af að ekkert sé. Verður mikill mannfjöldi við kalli hans að hlægja saman að öllum þeim málsbótum er drekar hafa útbúið sér til eflingar. Við þetta urðu drekarnir hamslausir af bræði. Tóku það til ráðs að leyfa lýðnum að hlægja að sér einn dag á ári en hver sem gerðist sekur um slíkt háttarlag þess utan yrði látinn sæta refsingu öðrum til viðvörunar. Svo fór að Sigurður hundskaðist aftur í dvalann og lýðurinn hélt áfram að tuldra hver í sinn barm.
Þrátt fyrir þessar ráðstafanir setti að drekum óöryggi sem jaðraði við brjálsemi og urðu þeir hér eftir æ viðkvæmari gagnvart minnsta flissi. Þóttust þeir heyra hlegið að sér við hvert fótmál.
Er ofanskráð í stórum dráttum forsaga þess er drekar keyptu upp hlátur mannanna.
Staðan verri en af er látið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.10.2008 | 19:34
Af gefnu tilefni: Riddarinn af Wall-Street
Einu sinni var duglegur riddari sem langaði að vinna glæsta sigra. Hann var í góðum málum. Keypti hlutabréf í tölvufyrirtækjum meðan þau voru í höndunum á saklausum menntaskólanemum. Fattaði nútímann. Seldi líka á réttum tíma. Gerði fjandsamleg yfirtökutilboð í nokkur vesæl fyritæki á markaði, hækkaði verð þeirra, seldi svo og græddi grimmt. Hugmyndina hafði hann fengið úr dýralífsþætti í sjónvarpinu um sniðuga vesputegund sem verpti í annara bú og nýtti afkvæmi gestgjafanna niðjum sínum til fæðu á púpustigi. Hann hélt sig í sigurliðinu.
Hann trúði á frelsi, lýðræði og upplýsta og glaða neytendur. Riddarinn hafði prófað margt um dagana; stjörnuspeki, spíritisma og kristalslækningar. En það sem hafði virkað best fyrir hann var Dáv Djóns. Haldreipi hans í lífinu. Þegar hún óx var hann glaður, þegar hún lækkaði varð hann hryggur. Jafnvel öruggt gengi á Japansmarkaði gat ekki glatt hann, þegar gengi Dáv Djóns fór lækkandi. Þá sagði hann kannski við sjálfan sig: ,,Þú getur huggað þig við Fútsí". En ekkert kom í staðinn fyrir Dáv Djóns. Hún hafði verið á uppleið allan síðasta áratug og riddarinn var alltaf glaður. Hann var áreitislaus við fólk og átti það jafnvel til að sína af sér vinarhót á tímabili í þenslunni. Riddarinn taldi sig þokkalega lukkaðan. Allavega eftir að hann vann í sínum málum. Hann lét engan vaða yfir sig né inn á sig. Vaknaði á morgnana og leit í spegil og sagði: ,,Spegill, spegill, herm þú mér, hvernig maður speglast hér". Og spegillinn svaraði að bragði: ,,Þú ert æðislegur og átt skilið velgengni". Svo tékkaði hann á Dáv Djóns og athugaði hvernig dagurinn yrði. Kvaddi spegilinn: ,,You sexí bíst" sagði hann oft glettnislega um leið og hann vinkaði speglinum. Hann leit á Rolexúrið, sagði konunni sinni gjarnan að hann væri að fara á áríðandi fund, hitta menn, greip bíllyklana og startaði (ágætum Ford Mercury turbo galant nýjustu árgerð). Honum leið best akandi. Meðan hann ók bílnum sínum, fannst honum margir taka eftir sér og hann var nokkuð viss um að þeir hugsuðu með sér: ,,Helvíti er hann ákveðinn þessi". En hann lét sem hann tæki ekki eftir neinu og einbeiti sér að stýrisbúnaðinum.
Eitt sinn er hann var að díla í kauphöllinni kom til hans gömul norn. Hún var frekar þreytuleg til augnanna, sem störðu gömul út um strekkt andlit. Hún var með gamaldags lagningu í heilsárskápu með Dior-slæðu um háls. Allt benti til þess að hún væri heimavinnandi. Hún mælti hrjúfri wiský-röddu: ,,Þeir sem hafa grabbað nægju sína, þurfa nú flestir eitthvað sem stillt getur mesta kvíðann og leiðindin. Og hvað með samviskuna hvernig gengur það uppgjör?".
,,Samviskan", sagði riddarinn heiðum rómi, ,,þarf að vera að spá í hana prívat og persónulega?" Það var fullkomlega löglegt þegar ákveðið voldugt innflutningsfyrirtæki undirbauð föður minn æ ofan í æ í öllu hans vesæla sprikli. Hann bara mátti ekki uppá dekk. Það var þá sem ég tók þá ákvörðun að halda mig í sigurliðinu. Þegar við lentum á vonarvölnum".
,,En þar blundar þó vonin", sagði kerlingarmeinhornið, settist á bak hreysiketti sínum og hvarf inní himininn. Hann horfði flissandi og vandræðalegur í kringum sig áður en hann tók sér taki og lét sem ekkert hefði í skorist og tékkaði á Dáv Djóns. Það var ekki um að villast. Meðan á þessum samræðum stóð hafði Dáv djóns hrunið niður í sögulegt lágmark.
Það þyrmdi yfir riddarann. Hann fann máttinn fjara úr líkama sínum og rétt gat skreiðst útí bíl. Hann spurði baksýnisspegilinn veikum rómi um stöðuna, en þar mætti honum ísköld þögn og afskræmdur kerlingasvipur sem minnti óþægilega á nornina. Hvert átti hann að fara? Hvert átti hann að keyra Ford Mercury turbo galant? Venjulega hefði hann startað og keyrt í klúbbinn sinn, kíkt á fjármálablöð og spjallað við strákana. Hann lagðist fram á stýrisútbúnaðinn og grét.
Kom þá aftur til hans kerlingarnornin, stakk upp í hann smjörklípu og mælti hásum rómi: ,,Hér ríður þú um héruð í fullum herskrúða engum til gagns".
,,Hvað starfar þú?" spurði riddarinn, sem hafði fengið örlítinn mátt úr feitmetinu.
,,Randsaumaðir keppir flatmaga á ísaldarstigi í syngjandi helli mínum. Heitar gufur úr seiðpotti, sultukrukkur í röðum".
,,Hvað viltu mér"? spurði riddarinn.
,,Hér ráfum við um örlöglaus í fjörbrotum deyjandi stétta", mælti nornin.
,,Já en ég er fjárfestir", sagði riddarinn veikum rómi.
,,Fé þitt virðist ekki hafa fest sig, heldur fuðrað upp og komdu nú með mér í kofann minn, kann ég vel við marga eiginleika þína, sem nýst gætu í fyrirætlanir mínar".
Viljalaus fylgdi riddarinn kerlingu út í skóg. Í kringum kofa hennar var mýrargróður og mannhæðaháir fjalldalafíflar drúptu þar höfði. Var sem riddarinn rankaði úr doða sínum við hárfínt fuglatíst músarindils er þar skaust fram úr fylgsni sínu og hrópaði af lífs og sálar kröftum: ,,Neyttu einskis!" Til allrar hamingju reyndist óp músarindilsins utan skynsviðs nornarinnar, sem var um það bil að lokast inni í skynfæraskorti eins og títt er um nornir.
Gekk riddari okkar nú til rekkju í kofa kerlingar, þóttist éta það sem fyrir hann var lagt, en hafði allan vara á. Lét sem hann svæfi en hélt öðru auganu opnu. Varðist hann þannig álagasvefni. Horfnir fjárfestar voru á vappi um kofann, kerlingu til yndis og þjónustu. Um nóttina sér hann nornina gera að nokkuð þekktum fjárfesta og vinna úr honum afurðir, sem hún sauð í potti sínum, pakkaði í neytendapakkningar og lagði í frystikistu. Með hjálp músarindilsins, (sem dró að sér athygli kattarins og kerlingar með), komst riddarinn óséður aftan að hyskinu og tókst að hrinda bæði norn og hreysiketti ofan í seiðpottinn. Vöknuðu þá fjalldalafíflarnir í garði kerlingar og kom í ljós að þeir voru dugandi fjárfestar í álögum. Hafði kerlingin náð þeim á sitt vald á soft augnablikum þegar gengi bréfa þeirra var í lágmarki. En músarindillinn reyndist bara réttur og sléttur músarindill sem var kominn með upp í háls af hreysikettinum. Verða fjárfestarnir frelsinu fegnir og flaðra upp um riddarann og kyssa á báðar kinnar.
Hirðir riddarinn nú gull kerlingar, stígur upp í Ford mercury túrbó galant og leggur af stað heim á leið. Sér hann í hendi sér að Dáv djóns dugi sér lítt til lífsgrundvallar og valt sé á henni völubeinið. Íhugar hann alvarlega á heimleiðinni að skrifa metsölubók um það sem fyrir hann hafði borið.
Komst annálsritari yfir glefsur úr handritinu og hafði til hliðsjónar við frásögn þessa.
6.10.2008 | 15:15
Í tilefni Brendanovich...
... þá finnst mér rétt að smella inn laginu okkar. Þetta lag var samið, við það saminn texti og svo tókum við það upp á innan við klukkutíma. Þetta er fyrsta lagið sem ég hef tekið upp í alvöru græjum og er því nokkuð montinn af frumburðinum. Við spilum báðir á gítar og syngjum báðir í laginu. Fyrir þá sem ekki þekkja mun á söngröddum okkar Brendans þá hljómar hann eins og eins og maður sem hefur neitt áfengis í talsverðu óhófi yfir ævina en ég hljóma eins og að eistun hafi aldrei gengið niður. Textinn er á ensku og ég bið móður mína innilega afsökunar á því en ég vil skella þeirri skuld alfarið á Brendonator. Njótið vel og lengi og endilega kommentiði á gripinn, svona einu sinni. Maður eyðir í þetta dýrmætum tíma sem annars færi í að gráta þá válegu staðreynd að maður ætti að vera að læra. Endilega grynnkið á samviskubiti mínu með því að kommenta í hvert sinn er ég hreyfi við lyklaborðinu.
Eitt n, samkvæmt síðustu skoðanakönnun voru "Hinar sígröðu hórur Mombasa" og "Magnús Björn Ólafsson" valin sisti félagsskapurinn í Kenya. Kom þetta nokkuð á óvart því samkvæmt áræðanlegum heimildum er þetta tvíeiki, hórurnar og Magnús, sá albesti félagsskapur sem völ er á í Kenya.
p.s. svo var ég að setja inn skoðanakönnun um hvert sé uppáhaldslag lesenda. Ég veit svo hvert svarið verður hjá Róberti rómantíska, valsstelpunum og Oddgeiri sveitamanni en þið hin eruð mér ráðgátur.
5.10.2008 | 19:38
Kreppuráð
Nú þegar kreppan virðist kreppa að okkur Íslendingum er fátt sem stjórnarmenn landsins geta hugsað sér atil bragðs að taka til að koma þjóðarbátnum aftur á flot. En þar á bænum vantar aðeins hugmyndaflugið því bjargræði leka af hverju strái hér á Fróni. Við þurfum bara að fara í hart og þvinga út fé frá öðrum þjóðum. Auðvelt er að láta sér detta í hug ráð og enn auðveldara að koma ráðunum í framkvæmd. Hér eru örfá dæmi um lausnir.
1. Við hótum því að drepa tuttugu hvali á hverjum degi ef við fáum ekki góða summu af lánsfé frá alþjóðasamfélaginu eða skuldir í útlöndum felldar niður.
2. Við þjóðnýtum fegurðardrottningarnar okkar og hefjum útrás í "útlánum" á drottningunum. Það er ég viss um að einhverjir auðjöfrarnir væru spenntir fyrir að fá Hófí, Lindu eða Unni lánaða í nokkra stund fyrir rétt verð.
3. Erlendir ferðamenn eru gangandi gullnámur. Þá má taka til fanga og krefjast lausnargjalds frá viðkomandi ríki. Einnig má skikka þá til vinnu, þjóðnýta bankareikninga þeirra og ef allt bregst á Íslandi mætti jafnvel nota þá í slátur.
Svona gæti ég haldið áfram endalaust og aðveldlega bjargað íslensku efnahagslífi. Með þessar hugmyndir að vopni í kreppubaráttunni getum við senn hafið svallið á ný.
Ég hvet lesendur til að koma með fleiri góðar hugmyndir sem geta bjargað Íslandi fyrir horn.
Menning og listir | Breytt 6.10.2008 kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2008 | 23:43
Brendan kominn, standard farinn
En þetta fylgir þessu víst, það er allavega engin ládeyða hér á Reynimelnum. P.s. strákurinn hans Brendans kom í gær og Brendan kynnti mig sem nýju mömmu hans. Ég stóð þarna með gúmmíhanskanna og játti nýja titlinum.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.9.2008 | 22:15
og hvað svo?
Jæja, þá er maður búinn að koma sér fyrir í koti sínu. Flest allt komið í góðar skorður og ég sæll og glaður með árangurinn. Bara byrjaður að búa, hva og ekki nema rétt rúmlega 26 ára. Íbúðin er ykkur að segja stakasta prýði enda bý ég að því að hafa tvo innanhúsarkitekta í hýbýlapælingum fyrir mig allan sólarhringinn. Annað séníið er hún móðir mín sem stendur sig með sóma enda hennar hagur að koma ungviðinu úr hreiðrinu til að geta leigt fyrri búsetu þess út fyrir fúlgur fjár. Móðir mín er nefnilega ekki aðeins með afar góðan smekk að eigin og annarra sögn heldur fékk hún líka tíu í litafræði í mynd- og handiðnaðarskólanum, aðeins að eigin sögn reyndar. Hitt séníið er ekki af óæðri enda en hér er um að ræða Báru Hólmgeirsdóttur konu bróður míns. Bára er starfandi fatahönnuður en svo virðist vera að hönnunargáfa hennar sé ekki einungis saumuð við föt því hönnunarorð hennar eru mér lög og stendur hún fullkomlega undir því hve henni finnst hún vera klár í þessum málum. Eins og má glögglega lesa úr skrifum mínum er ég einstaklega montinn af nýjum húsakynnum mínum. En á meðan ég býð símtalsins óumflýjanlega frá Völu Matt reyni ég að finna mér eitthvað til dundurs. En það er einmitt málið, hvað skal svo gera? Eftir að maður hefur komið sér svona líka fyrir, hvað svo? Á ég svo bara að hanga í þessum glæsihýbýlum og horfa á sjónvarpið eða hanga á Facebook? Er ekki eitthvað sem svona fólk í svona íbúðum gerir? Endilega gaukið að mér heilræðum því ég er nýr í þessum efnum.
Virðingarfyllst, Sigurður Óðalseigandi
24.9.2008 | 22:01
Róbert Óli, þetta er til þín!
Ástæða færslu þessarar er sú að ég hef nú sett inn lag eitt er nefnist "Það fær ekkert í veröld því breytt" Forsaga þessa lags er sú að fyrir kannski svona fimm árum var ég í bíltúr með einum albesta vini mínum, honum Róberti, og lagið "Endalaust" með Sverri Bermann hljómaði í útvarpinu. Róbert er þekktur fyrir að vera í flokki væmnustu manna landsins og lofsamaði lagið. Ég reyndi að mótmæla með þeim orðum að þvílík væmni og óbjóður er birtist í texta lagsins dvergaði sjálfa Opruh en hún hefur unnið væmnibikarinn þrjú ár í röð og fékk hann loks til eignar. Róbert var á öndverðum meiði við mig og sagði að það þyrfti nú snjallan textahöfund með hjartað á réttum stað til að semja slíkan ástaróð. Ég sagði að fátt væri léttara en að semja væminn ástartexta við stolið lag. Róbert tók mig á orðinu og sagði; Gerðu það þá!
Fór ég því heim á leið, tók mér gítar í hönd og hóf textasmíð. Textinn skyldi bera af í væmni og innihalda allar þær væmnustu líkingar sem til eru á íslenskri tungu. Sál, ást, líta í augu, gleyma ekki stundu, elska heitar en lífið, óska, fara frá mér, ekkert í veröldinni getur breytt því, fel líf mitt í þínar hendur, frá mínu hjarta, speglast í þér, aðdáun, þrá, innra með mér, hamingja, farðu ekki frá mér, lifa við hlið þér er draumur og ég vil ekki vakna frá þér...... allt þetta kemur fram í orðabók væmna gæjans og einnig í mínum litla texta en svo má auðvitað ekki gleyma þeim sígildu rímorðum mig og sig, mér og þér, mín og þín.
Grínið sprakk síðan í andlitið á sjálfum mér þegar Róbert tjáði mér að honum líkaði lagið. Lagið er hér með gert opinbert og endilega segið ykkar skoðun á dýrgripnum.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar