Leita í fréttum mbl.is

23 júlí

Vöknuðum tussulegir eftir erfiða nótt. Magnús sá og heyrði í moskítóflugum allt í kringum sig og barðist á hæl og hnakka alla nóttina. Katana þurfti að koma inn og klappa Magga á kollinn. Í dagrenningu kom í ljós að ofsóknarbrjálæði Magnúsar átti fullan rétt á sér því við vorum þaktir bitförum um allan skrokk. Eftir morgunmat forðuðum við okkur inn í miðbæinn af ótta við afrískan hádegismat. Þar eyddum við mestum parti dagsins í búðarrölt í rigningu Malindi. Við mættum aftur upp í þorp um fimm leytið því bróðir Katana og félagar hans ætluðu að halda okkur sýningu. Hálfgerð blanda sirkusatriða og fimleikaatriða var á boðstólunum og skemmtum við okkur hið besta líkt og restin af þorpinu sem þarna var samankomin. Að lokinni sýningunni voru öll börnin í þorpinu eftir að horfa á aðra sýningu, tvo hvíta menn. Börnin fóru að sýna einhver trix sem þau gátu gert og ég reyndi mitt besta að apa það eftir þeim. Hvort sem það var að blístra, bretta upp á augun, ganga á höndumeða herma eftir hana, allt var gilt í þessum leik. Ég vakti mikla lukku með íþróttaálfs-fimleikaatriðum sem og með hinu klassíska gelti. Allir fengu tækifæri til að flagga hæfileikum sýnum og brunnurinn var óþrjótandi. Það er erfitt að lýsa þessum tveimur tímum með þrjátíu börnum í þorpi í Kenya en þetta var ein af stundum ferðarinnar að mínu mati. Magnús hinsvegar las úr ritningunni og bar á bit sín á meðan þessu stóð. Eftir að hafa kvatt börnin fórum við með Katana út í snæðing. Að honum loknum svalaði Magnús spilafíkn sinni á meðan við Katana ræddum heimsmálin við hórur. Að því loknu fórum við í billiard og ég vann fyrsta leik minn gegn Magnúsi í ferðinni með yfirburðum. Magnús kenndi slæmu borði um tapið en öll þekkjum við málsháttinn sem á hér við. Eftir að hafa afþakkað fjölda góðra tilboða um "nudd og með því" héldum við heim í þorp. Minnugir slæmrar útreiðar um síðustu nótt sváfum við í fötum með hettu og buxurnar girta ofan í sokkana. Óhræddir lokuðum við augunum og svifum fulklæddir inn í draumalandið. Fötin og netið dugðu þó skammt þessa nóttu. Þær finna sér alltaf leið til að sjúga mann bannsettar, flugurnar þar að segja, ekki hórurnar.

22 júlí-Malindi

Vöknuðum, tékkuðum okkur út, hittum Katana og af stað. Katana býr í Malindi og hjá honum munum við dvelja þann tíma er við verjum í Malindi. Ferðina tók fljótt af og Malindi blasti við. Katana býr í yndislegu þorpi rétt fyrir utan þungamiðju Malindi. Þorpið er hálfgerð sveit, mikið um gróður og hús úr drullu. Þar er gott að vera, fólki virtist líða bærilega og viðmótið er vingjarnlegt. Malindi borginni má hinsvegar skipta í tvennt. Annarsvegar venjulegri afrískri borg,og hinsvegar ítalska hluta Malindi. Í ítalska hlutanum sitja gamlir mafíósarnir, hama í sig rándýrar pizzur og plotta. Við snæddum eingöngu á ítölsku stöðunum eftir fyrstu og einu máltíðina sem okkur var boðið upp á hjá Katana.
Við mættum til Malindi um hádegið og eftir máltíð tókum við rölt um heimahaga Katana. Yndisstaður í einu orði. Við vöktum óskipta athygli barna þorpsins sem eltu okkur á röndum. En í stað gamla góða "how are you" fengum við kveðjuna "ciao" og í kjölfarið fylgdu ítalskar setningar sem við botnuðum ekkert í. Svo vön eru þau orðin mafíósunum ítölsku. Ítalskra áhrifa gætti hvarvetna, eftir nokkra stund á labbinu um gróðri vaxið þorpið breytti gróðurinn um mynd. Í stað banana- og kókostrjánna komu rósatré. Múrveggir, rafgirðingar, öryggisljós og myndavélar. Við vorum greinilega að nálgast ströndina, landsvæði Ítalana. Þar voru risa villur girtar af svo svartir karlmenn héldu sig víðsfjarri. Aðra sögu var að segja af svörtu konunum sem Ítalirnir boðu guðvelkomnar enda í erindagjörðum þóknanlegum mafíósunum. Allar stúlkurnar á svæðinu er ekki bera hring eru falar. Þetta sáum við ekki einungis með eigin augum heldur sagði Katana okkur þetta líka. Svo mikill er fjármunurinn á venjulegri vinnu og "óvenjulegri" að jafnvel hin eðlilegasta húsmóðir er til í ítalskt til að rétta af fjárhaginn.
Við gengum um fallega strönd Malindi og svo um miðborgina. Að langri göngu lokinni átum við með Toni Sopranos og félögum hans. Um kvöldið fór fíkn Magnúsar að láta á sér kræla og var henni svalað með stórtapi á spilavítinu. Að tapinu loknu héldum við á diskó sem eingöngu virtist vera sótt að hórum og mafíósum. Við girntumst hvorugan félagsskapinn og héldum heim á leið. Við skriðum saman upp í lítið rúm og vorum stungnir í svefn.

21 júlí

Vöknuðum álíka snemma og eldurinn og stukkum upp í rútu. Snorkl og höfrungaskoðun var á dagskránni þennan daginn. Rútuferðin tók um tvo tíma og enduðum við að ég held við Diani-ströndina. Þaðan var svo siglt út í óvissuna í bát sem skapaði enn meiri óvissu. Í gegnum sjóveikina skynjaði ég slatta af höfrungum í kringum bátinn. Einn þeirra var með tattúverað "Flipper" á síðuna og hlýtur að hafa verið foringinn. Loks komum við út að eyju nokkurri og hófumst handa við snorkl. Endalaust af litskrúðugum fiskum sem voru gælnari en kettlingar og heimkynni þeirra, kórallarnir, voru svipað gæfir. Þetta og meira til blasti við okkur undir spegilsléttu ljósbláu yfirborðið. Eftir fiskaklapp og kórallaklifur héldum við upp á eyjuna sem var á stærð við fótboltavöll og hulin gullnum sandi. Þar efldum við sortuæxlismyndun í líkömum vorum í dágóða stund uns við fórum aftur um borð. Við sigldum á aðra eyju og þar var boðið upp á, að sögn viðstaddra, dýrindis krabba og fisk (sjálfur gæddi ég mér á uppþornuðum kjúlla). Eftir matinn röltum við um þorpið. Við Magnús rústuðum litlum börnum í fótbolta við ómælanlegar vinsældir þorpsbúa. Svo kíktum við á magnaðan kórallagarð sem stendur við þorpið. Að lokninni göngu um garðinn þar sem flugu ófáir brandarar um samferðafólk okkar var haldið heim á leið. Um kvöldið fórum við á stúfana í leit að vönduðum veitingastað. Hann fundum við svo sannarlega og sofnuðum afmyndaðir af áti.

P.S. Magnús vill bæta við frásögn þessa að í dag hafi hann ekki einungis læknað mig helsjúkan af sjóveikinni heldur gekk hann einnig á vatni og fæddi nauðstadda drengi. Þarf frekari vitnanna við? Ef einhverntíman hafi leikið vafi á því þá var honum klárlega eytt í dag. Magnús er sannlega sonur guðs endurfæddur. Og ég fylgi honum hvert fótmál og skrái niður ferðir hans, gjörðir og dæmisögur. Hver veit nema þessi litla dagbók, Sigurðarguðspjallið, gefi mannkyninu von og trú á komandi tímum. Annað eins hefur nú gerst.

Staðreynd um Kenya; þú færð aldrei alveg það sem þú pantar á matsölustað.


20 júlí

Í dag flugum við til Mombasa á austurströnd Kenya við Indlandshaf. Flugið var stutt og þægilegt og innan stundar lentum við í Mombasa. Mombasa er annar heimur en Nairobi og aðrir staðir hingað til. Hér er mun heitara og rakara loftslag enda höfum við hingað til mestmegnis haldið til á hálendinu. Mombasa er hinsvegar hafnarborg. Hér er annar fílingur í loftinu. Fyrir það fyrsta eru um helmingur íbúa múslimar hér um slóðir og kyrja moskurnar bænaköll frá morgni til kvölds. Hér virðist ekki ríkja eins mikil fátækt og í Nairobi og borgin er hreinni og fallegri. Hér er samt allt mun ódýrara en í höfuðborginni og munum við Magnús láta reyna á verslunareiginleika okkar sem allra fyrst. Frá flugvellinum fórum við í hótelleit og hótelið sem við fundum var happafengur. Ekki nóg með að nóttin kosti aðeins þússara á kjaft með mat þá er internet café á móti, sem og hraðbanki, gamli bærinn við hliðina og labbfæri í miðbæinn. Eftir að hafa teygt úr okkur á hótelinu gengum við í gamla bæinn. Áður en þangað var komið slóst í för með okkur Samúel (Örn?) og tók hann sér óumbeðinn leiðsögumannshlutverk. Síðar kom þó í ljós að hann er í raun leiðsögumaður hótelsins. Gamli bærinn er magnaður. Íslömsk áhrif í byggingarstíl. þröngar götur og hræódýrar búðir. Eftir að hafa gengið bæinn á enda og lofað mörgum búðareigandanum blómlegum viðskiptum á morgunn var haldið á ströndina. Við tókum leigara og hlupum naktir um sandinn skömmu síðar. Við stungum okkur síðan til sunds og nutum við Ránar, Báru og Unnar. Við vöktum óskipta athygli strandverja sökum hörundslits og nektar en það má skjóta því að að hér um slóðir er vetur og er fólki í úlpum á ströndinni, eðlilegt í 30 gráðum. Við vorum stoppaðir á mínútufresti af fólki sem vildi verða vinur okkar, bróðir eða ástkona. Við tókum vel í allar þessar tillögur. Eftir strönd fórum við heim í sturtu og svo út að borða. Í millitíðinni hafði Samúel (Örn?) planað höfrungasundferð fyrir okkur í fyrramálið sem hljómaði bara svona líka vel. Yfir matnum spjölluðum við um hvernig við gætum orðið betri menn og fundum svarið. Að því loknu fórum við í skoðunarferð um borgina í hinum stórhættulega túktúk og gengum svo heim úr bænum. Lögðumst í næturdvala við róandi viftuhljóð.

19 júlí

Átumst, pökkuðumst og af stað heim. Kvöddum Masai Mara og við tók langt ferðalag á hræðilegum vegum. Varla þarf að minna á að í dag var áttundi dagur án hægða og gerði það ferðalagið meira spennandi fyrir vikið. Eftir tvo tíma bilaði bíllinn og við stoppuðum afar lengi á verkstæði. Þar drápum við Magnús tímann með sælgætisáti, pókerspili og spjali við innfædda. Eftir allt of langt stopp var á aftur af stað heim. Ekki höfðum við lengi ekið uns við stoppuðum á ný og nú hjá konum sem seldu kol við veginn. Ég beið í bílnum en Magnús meig eins og enginn væri morgundagurinn. Kolakerlingarnar vildu gera sér dælt við Magnús inn í runna en hann afþakkaði þetta heillandi tilboð eins og sönnum sveitapilti sæmir. Þá hlógu þær bara tannlausum hátri og tóku til við kol á ný. Við Magnús tókum í spil í bílnum og eins og í öllum leikjum ferðarinnar hingað til grísaði hann á sigur og eins og ávallt átti hann erfitt með að hemja montið. Ég sagði að það væri leitun að verri sigurvegara og hann sannaði orð mín með því að svar drjúgur; "ef þú tapar áttu bara að halda kjafti!" og svo skellihló hann. Þetta dusilmenni þarf ég að draga með mér um svörtustu Afríku. Leiðin loks enda tók og við kvöddum Wilson bílstjóra, Dickson kokk og Ester konu með tárin í munninum. Okkur var vel fagnað heima hjá Rúfusi og okkur færðar dýrindis krásir sem við slátruðum á fáheyrðum tíma. Að loknu áti lögðumst við uppgefnir í poka.

Farinn í aðgerð...

koma svo Siggi, batna!

18 júlí

Lögðum af stað snemma morguns til að taka í spaðann á flóðhestum og krókódílum. Fórum niður að á og sáum flóðhestana baða sig og krókódílana sóla sig. Sældarlíf hjá þessum tveimur kumpánum. Mynduðum þá frá öllum hliðum og fenguð fræðslu frá hinum magnaða Jackson (Mickael?) um allan andskotann. Við stöldruðum lengi við hjá fljótabúum enda ekki síður merkilegar skepnur en okkar kæri Jackson. Að því loknu héldum við í hádegismat. Á tjaldsvæðinu beið okkar Kasoi. Sá er sko merkilegur andskoti. Opinn maður sem talar mikið og við alla og er tilfinningalega hástemmdur. Hann hefur drepið ljón og þrjá menn og kann hann ótal aðrar frægðarsögur af sjálfum sér og öðrum. Með honum fórum við á stóran markað þarna í grendinni og jafn mikla litadýrð hef ég aldrei áður litið. Kasoi heilsaði öllum á markaðnum og leiddist hreint ekki að fræða okkur í þaula um markaðinn og allt honum ótengt. Hann gerði mikið grín að mér fyrir að óttast býflugur og spann upp ótal sögur sem enduðu flestar á því að hann hefði týnt eigum sínum á flótta undan býflugu. Við þræddum markaðinn í nokkra stund og sóttum síðan vatn í vatnsból. Þar þurftum við þó að bíða í röð því beljugengi svalaði einnig þorsta sínum þar og þær komu víst á undan. Eftir markaðinn var étið. Að næringu lokinni var vikuskammtur af hægðum í líkama mínum sem þverneitaði að endurfæðast. Eftir að hafa fyllt á áður yfirfullt forðabúr mitt var haldið á ný að fljótinu í þeirri von að verða vitni að drápi á vegum krókódíla. Hjörð dýra gerði sig líklega að halda yfir fljótið og hjörð krókódíla gerði sig líklega til að gæða sér á fyrrnefndu hjörðinni. Á meðan við biðum áts eltum við bavíana sem forðuðu sér öskrandi. Magnús sýndi síðan karlmennsku sína með því að klífa tré og meiða sig við það. Hann fór ekki að gráta þótt það kæmi blóð. Svo fór að hjörðin kærði sig ekkert um það að halda yfir ána og skildi okkur eftir í ósedda í blóð. Við keyrðum heim í sólarlaginu. Mættum beint í mat og átum yfir eldi. Að því loknu gengum við til hvílu.

17 júlí

Eftir morgunmat lögðum við af stað í dýraleit. Og viti menn, heppnin var með okkur. Rákumst við ekki á hlébarða, það dýr sem erfiðast er að finna á svæðinu. Lá hann í makindum upp í tré og gæddi sér á antilópulíki. Við drituðum á hann myndum í dágóða stund eins og sönnum túristum sæmir og héldum okkar leið. Ekki sáum við önnur merkileg dýr fyrir hádegi. Að loknum hádegismat kom hunangsfugl nokkur í tjaldbúðirnar og sagðist hafa fundið hunang. Við trúðum honum og fylgdum út í skóg. Fuglinn flaug skammt undan okkur og hrópaði á okkur og innfæddu vinir okkar svöruðu honum. Ekki leið á löngu þar til býflugnabú varð á leið okkar. Leiðsögumaður okkar fór ránshendi um búið við litla hrifningu íbúanna sem flugu yfir höfði hans. Við átum hunangið með bestu lyst og gáfum fuglinum með okkur. Að þessu litla kraftaverki loknu héldum við í þorp Masaia til að klappa og taka af þeim myndir. Við mættum í þorpið og þeir tóku höfðinglega á móti okkur. Þeir tóku okkur í túristarúntinn sinn og fóru svo að hoppa eins og þeir eru alkunnir fyrir. Ég hoppaði með þeim og sýndi þeim hvernig á að gera þetta. Úr augum þeirra aðdáun skein. Loks fórum við á einhvern örmarkað sem kvensur þorpsins efndu til. Þar var keypt frekar af vorkunnsemi en löngun og kvöddum við síðan náttúrubörnin. Aftur héldum við í dýraleit og ókum fram á sjakala sem elti dauðvona gný. Í stað þess að seðja blóðþorsta okkar leituðum við ljóna. Fundum þau og mynduðum í gríð og líka í erg enda merkisgripir. Okkur stóð ekki á sama þegar eitt ljónið vippaði sér á lappir og gekk til okkar. Við sátum upp a bíl á meðan ljónið gekk fram hjá honum, settist því næst á hækjur sér, girti niður um sig og gerði þarfir sínar blygðunarlaust fyrir allra augum. Eftir nokkra stund komu fimm ljón út úr hreiðri sínu ásamt mömmu með ungana sína. Kallinn varð eftir í koti sínu enda lætur hann ekki bjóða sér annað en að ríða, sofa og éta. Ljónin héldu á veiðar og við héldum heim til að bjarga dótinu okkar frá þrumuveðri sem lá í loftinu. Rétt náðum í tjald í tíð og regnið átti sviðið restina af kvöldinu. Skriðum upp í blauta svefnpoka og hlustuðum á gnýi elskast innilega og hýenur hlæja að þeim.

Staðreynd um Kenya: Allir bílstjórar eru með baksýnisspegilinn stilltan á sjálfa sig!


16 júlí. 15 júlí verður ekki getið sökum leiðinda

Lögðum af stað frá Nairobi til Masai Mara klukkan níu um morguninn. Við vorum sóttir af risa LandCrusier og húsbónda hans, honum Wilson. Ásamt Wilson voru Dickson kokkur og Ester kona með í för. Þeir sjö tímar í bílnum hljómuðu virkilega illa en reyndin varð önnur enda spennandi og viðburðarrík ferð.
Eftir um klukkutíma akstur keyrðum við fram á bíl sem virtist hafa keyrt út af veginum og oltið niður í hlíð. Fjöldi fólks var samankomið fylgjast með sem og fimm lögreglumenn með alvæpni. Þeir stoppuðu okkur og sögðust þurfa að sitja í smá spöl upp að næsta þorpi. Þegar við nálguðumst þorpið sáum við að þar var ekki allt með feldu. Við útmörk þropsins höfðu á að giska tvö hundruð manns tekið sér stöðu. Er við nálguðumst skipuðu menn okkur að snúa við. Æstur mógur var að mótmæla og var það var búið að loka veginum með steinum og greinum. Við stöðvuðum bílinn og þá gerðist nokkuð sem fékk adrenalínið til að flæða. Lögreglumennirnir fimm í bílnum hlóðu byssur sínar og þustu út. Múgurinn tók á rás og löggan á eftir. Alt í kringum bílinn var mikið kaos. Lögreglumennirnir náðu einum gaur og héldu honum. Lögregluforinginn gekk til hans og gaf honum vænt kjaftshögg áður en hann tók í hann og fór að öskra á hann. Lögreglan fjarlægði hindranirnar af veginum og við héldum aftur af stað, dulítið titrandi.
Ekki höfðum við ekið lengi uns við vorum stoppuð af öðrum löggum og Wilson tjáð að hann hefði ekið eitthvað ranglega. Algjör vitleysa og hann reyndi í fyrstu að þræta fyrir það en löggan tók rök hans ekki gild. Hún tók hinsvegar mútur hans fullgildar og við sluppum án sektar. Stuttu síðar ókum við fram á trukk sem hafði oltið á hliðina og góður slatti fólks horfði á. Ekki höfðu við ekið lengur en fimm mínútur þegar við ókum enn og aftur fram á slys. Frekar slæmt slys af aðstæðum að dæma en þarna var vörubíll vel klesstur og flutningabíll með tengivagn hafði farið í gegnum vegrið og runnið niður hlíðina, hlíð sem er í 2000 metra hæð yfir Sigdalnum mikla þar sem fyrsti maðurinn gekk um. Sigdalurinn er svona eins staður og Þingvellir, stór hluti af Afríku er að losna og reka frá meginflekanum. (9.5 í náttúrufræði í H.Í.) Við stoppuðum rétt við slysið og tókum túristamyndir niður í dalinn.
Nestisstopp tókum við á einhverjum stað er seldi útskorna muni. Margt mjög fallegt þar að sjá en útskurðarmennirnir voru allt of ágengir og við hálfhrökkluðumst út með því loforði að koma aftur á leiðinni heim. Það loforð munum við svíkja blygðunarlaust. Aftur héldum við af stað en ekki leið á löngu þar til tekið var pissustopp því Magnús mígur meir en hundur á kvöldgöngu. Þegar við stoppuðum komu fjögur börn og stóðu álengdar við bílinn. Ég brosti til þeirra og þau nálguðust. Þá gerðist nokkuð skemmtilegt. Allt í einu hlupu börn úr öllum áttum að bílnum og var bíllinn þvínæst umkringdur. Ég opnaði bílhurðina og gekk út í hópinn vopnaður haribo-gúmmíböngsum. Það vakti jafn mikla hrifningu og trylling. Það var líkt og börnin hefðu aðeins heyrt um sælgæti í ævintýrum. Allir fengu þó eitthvað að lokum og vinkuðu okkur alsæl í sykursjokki er við tókum af stað. Eftir því sem við nálguðumst Mara þjóðgarðinn fór að bera á fleiri dýrum. Við sáum hóp apa og endalaust af hjarðdýrum. Eftir rúma sjö tíma komum við loks ti Masai Mara. Ég bjóst við að keyra inn um hlið og svo um merkta vegi en því var víðsfjarri. Við vorum allt í einu komnir út á steppu og þar mátti barasta keyra út um allt í leit að dýrum. Við keyrðum fram á hóp gíraffa og tugþúsundir hjarðdýra. En það voru þó helst kjötæturnar sem heilluðu okkur. Þær voru á dagskrá morgundagsins.
Við sáum í fjarska mann gangandi á steppunni. Við stefndum til hans og hann reyndist vera íbúi þarna og um leið leiðsögumaður okkar. Þarna var kominn Jackson (Mickael?). Þeim manni mun seint líða okkur úr minnum enda litríkur karakter með eindæmum. Hann vippaði sér upp í bílinn og við keyrðum inn í kjarr. Þar tjölduðum við og kveiktum eld. Eldurinn ásamt Masai stríðsmanni með spjót átti að beina svöngum villidýrum frá tjaldi hvítu safaríku mannanna. Við sáum fram á að sofna áhyggjulausir. Við eldinn hlustuðum við á Jackson segja sögur fram á kvöld og við Magnús sungum íslensk þjóðlög fyrir liðið. Við sofnuðum við ískyggilega nálægan hýenuhlátur.

14 júlí

Svaf lítið sökum bakverkjar og vætu. Átum morgunmat og fórum að ríða. Ekki höfðum við lengi riðið er við komum að fyrsta býlinu. Sá klukkutími er fór í hönd var eins og sífellt de sja vu. Við komum að býli, út þusti krakkaskari sem veifaði og hrópaði í kór bye bye. Fjöldi býla, enn fleiri börn og ávallt það sama. Við komum um hádegið aftur til Yare og skelltum okkur í mat. Það var bara til kjúklingur og grjón svo við átum það. Eftir át eyddum við dágóðum tíma við billiardborðið þar sem ég vann alltaf Rufus, Rufus Magga og Maggi mig. Aðfæddur rastamaður samkjaftaði ekki allt kvödið og grunur um freðleika gerði vart um sig hjá okkur. Um sex leytið kom hópur fólks á svæðið, alltaf gaman að fá smá kompaní. Fjöldi barna var í hópnum og fóru þau öll, að einu undanskildu, að hágráta þegar þau sáu mig. Eina barnið sem hélt aftur af tarunum tók titrandi í höndina á mér og gaf mér hálft kex. Ég át það.
Í hópnum voru tvær systur sem gerðu sér dælt við mig og spjallaði ég í dágóðan tíma við þær og frændur þeirra um guð. Hvorugt sannfærði hitt en spjallið gladdi alla. Restina af kvödinu var okkur pakkað saman í biliard af kenyskum prestum. Lögðumst undir net um tíu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Gleðigjafinn

Sigurður Eggertsson
Sigurður Eggertsson
Ég er ungur og bjartsýnn og það blessast allt hjá þessháttar gæja, nema hvað.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 1159

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband